Erlent

Grunur leikur á að nokkrir hryðjuverkamenn gangi lausir í Belgíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Enn er í gildi hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar í Brussel, höfuðborg Belgíu, en yfirvöld leita nú logandi ljósi að nokkrum mönnum sem grunaðir eru um að leggja á ráðin um hryðjuverk í landinu.

 

Allt eins er talið líklegt að viðbúnaðarstigi verði ekki aflétt fyrr en líða tekur á vikuna. Það hefur verið í gildi síðan á föstudagskvöld vegna alvarlegrar og yfirvofandi hryðjuverkaógnar.

Vopnaðir lögreglumenn og hermenn ganga um götur Brussel en viðbúnaðarstigið var meðal annars hækkað vegna gruns um að einn höfuðpaura árásanna í París, Salah Abdeslam, sé í borginni.

Hans er þó ekki aðeins leitað heldur einnig fleiri grunaðra hryðjuverkamanna, að sögn Jan Jambon, innanríkisráðherra Belgíu. Haft er eftir honum á vef Guardian að það sé enginn tilgangur með því að fela að raunveruleg hætta steðji að en yfirvöld vinni hörðum höndum að því að hafa stjórn á ástandinu.

Neðanjarðarlestarkerfinu í Brussel var lokað í gær og verður áfram lokað í dag. Þá voru söfn lokuð í gær, knattspyrnuleikjum aflýst sem og tónleikum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×