Lífið

Hefði viljað kynnast pabba eins og hann var

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að vera formaður Heimdallar segist Albert ekki endilega sjá fyrir sér feril í stjórnmálum. Hann vill að stjórnmálamenn hætti að tala um hlutina og fari að gera eitthvað.
Þrátt fyrir að vera formaður Heimdallar segist Albert ekki endilega sjá fyrir sér feril í stjórnmálum. Hann vill að stjórnmálamenn hætti að tala um hlutina og fari að gera eitthvað. Fréttablaðið/Ernir
Nafnið hefur oft valdið misskilningi. Ég er mjög oft spurður hvort ég sé barnabarn Alberts Guðmundssonar en ég er ekkert skyldur honum. Ég heiti eftir pabba mömmu sem hét Albert og svo hét pabbi minn Guðmundur. Ég vann á elliheimili eitt sumarið og þar höfðu margir gaman af því að ég héti þessu nafni og væri sjálfstæðismaður en ekkert skyldur Alberti Guðmundssyni,“ segir Albert hlæjandi þegar við hittumst einn sólríkan dag á Kjarvalsstöðum og vísar þar í nafna sinn heitinn, fótboltamanninn frækna og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Albert vakti athygli þegar hann tók við embætti formanns Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, í september eftir harða baráttu sem endaði með sex atkvæða sigri gegn sitjandi stjórn. Albert nær sér í kaffibolla og við tyllum okkur í sófa skammt frá nokkrum eldri konum sem gæða sér á kökum og kaffi milli þess sem hlátrasköllin óma.

Engin silfurskeið

Þrátt fyrir að vera á fullu í stjórnmálastarfi segir hann það þó aldrei hafa legið beinast við að hefja afskipti af stjórnmálum. Hans æskudraumar hafi ekki snúist um það. „Nei, þetta kom eiginlega bara mjög óvænt upp,“ segir Albert sem segist reyndar vera langt frá því að passa inn í þá staðal­ímynd sem margir hafi af ungum sjálfstæðismönnum. Hann hafi engin tengsl við flokkinn en hafi kunnað að meta stefnuna og þess vegna gengið til liðs við hann. „Ég held það hafi enginn kosið flokkinn í fjölskyldunni nema amma mín,“ segir hann brosandi og fær sér kaffisopa.

Hann segist ekki hafa alist upp með silfurskeið í munni eins og stundum er sagt að sjálfstæðismenn hafi gert upp til hópa. „Nei, það er langt frá því og það er líka fullt af fólki innan flokksins sem er alls ekkert þannig þó það séu örugglega margir sem passi inn í þá ímynd,“ segir hann.

„Reyndar held ég að það séu alltof margar silfurskeiðar sem fara í stjórnmál. Ekki af hugsjón heldur af því þeim finnst flott að hafa það á ferilskránni.“

Albert á ættir að rekja austur á Fáskrúðsfjörð, þar sem báðir foreldrar hans ólust upp. Foreldrar hans, Guðmundur Karl Erlingsson og Margrét Albertsdóttir, fluttu í borgina þegar faðir hans hóf flugnám. Ung með bjarta framtíðardrauma. „Við vorum svona bókhaldsbörn. Níu mánuðum eftir brúðkaupsnóttina kom elsti bróðir minn í heiminn, tveimur árum seinna kom ég og tveimur árum eftir það fæddist litli bróðir minn.“

Snúið og erfitt

Fjölskyldan byggði sér hús á Seltjarnarnesi og utan frá leit allt vel út. Þegar strákarnir voru nokkurra ára gamlir fór að bera á óveðursskýjum, faðir hans átti erfitt með að ráða við drykkju sína og það var farið að valda fjölskyldunni áhyggjum. Áfengisneysluna faldi hann samt vel til að byrja með.

„Pabbi var flugstjóri og mjög flottur karl. Fluggáfaður miðað við það sem maður heyrir og flottur í sínu starfi. Ég þekkti samt ekki þær hliðar á honum og man ekki eftir honum þannig,“ segir hann þungur á brún.

Áfengið fór fljótlega að verða föður hans fjötur um fót. Hann var orðinn flugstjóri hjá Icelandair, vel metinn í starfi en áfengisneyslan tók sífellt meiri toll. Faðir hans fór í nokkrar meðferðir en hélst sjaldnast þurr lengi. Þegar Albert var um tíu ára gamall þá var staðan orðin mjög slæm. Faðir hans var sendur í leyfi frá störfum vegna áfengisneyslunnar sem hann réði augljóslega ekki lengur við. „Það reyndu allir allt til að hjálpa honum, það vildu honum allir svo vel en hann gat ekki hætt. Þetta varð alltaf verra og verra. Hann var alltaf fullur og það var farið að hafa áhrif á starfið hans. Hann var settur í tímabundið leyfi frá störfum sem varð svo til frambúðar.“

Albert með foreldrum sínum, Margréti og Guðmundi, og bræðrum sínum meðan allt lék enn í lyndi hjá fjölskyldunni áður en áfengissýkin heltók föður hans.
Endaði á götunni 

Ástandið var orðið það slæmt að hann gat ekki lengur búið á heimilinu. Faðir hans flutti út. „Svo endar hann bara á götunni. Þetta var á þeim tíma sem ég er að harðna og að verða aðeins sjálfstæðari einstaklingur.“

Leiðin lá fljótt niður á við hjá föður hans eftir að hann flutti frá fjölskyldunni. Fljótlega var hann orðinn einn af útigangsmönnunum sem halda gjarnan til í miðbænum. Fyrir óharðnaðan ungling var talsvert erfitt að horfa upp á föður sinn feta þennan veg. „Hann varð svo taktlaus fyrir öllu. Hann var alltaf að gera okkur lífið leitt en fattaði ekki hvað hann var að gera okkur. Hann mætti oft heim til okkar blindfullur að reyna tala eitthvað við okkur. Hann kom stundum upp í skóla og fór að spyrja vini mína út í mig,“ segir Albert og útskýrir að líklega hafi hann verið að reyna að nálgast bræðurna á einhvern hátt en fyrir þá hafi það bara þyngt róðurinn.

„Hann var stundum að fara í strætó í kringum Nesið, við hittum hann oft þar en stundum þekkti hann okkur ekki,“ segir Albert og rifjar upp eitt þessara skipta. „Ég var að taka strætó niður í bæ á Menningarnótt með vinum mínum þegar við vorum í 9. eða 10. bekk. Hann var í strætó og við löbbum fram hjá honum og ég reyndi að láta hann ekki taka eftir mér. Svo voru krakkarnir eitthvað að hafa gaman og ég vissi að þetta væri að stefna í eitthvað hræðilegt. Þá stoppaði hann allan hópinn og fór að segja frá sér, blanda geði við krakkana og spyrja hvort þau þekki mig. Ég var þarna með þeim en hann þekkti mig ekki. Ég gekk fram hjá honum og sagði honum að grjóthalda kjafti.“ Albert segist hafa verið reiður yfir þessum aðstæðum. „Ég var reiður en samt svo máttlaus, hvað á maður að segja? Hann var veikur.“

Albert fékk reglulega að heyra á unglingsárunum hversu góður maður faðir hans hefði verið og heyrir enn í dag slíkar sögur þar sem mannkostir hans eru lofaðir. Faðir hans var vinsæll maður og margir sem sáu eftir honum þegar áfengissýkin heltók hann.

„Við strákarnir heyrum alltaf að pabbi hafi verið svo góður karl, bara besti maður sem fólk þekkti. En við upplifðum það ekki þannig, ég þekkti ekki þennan mann. Ég þekkti pabba minn sem róna sem gerði okkur lífið yfirleitt leitt. Þetta var mjög snúið og erfitt. Það var ekki nóg með að við misstum pabba okkar heldur var hann líka að gera okkur erfitt fyrir,“ segir Albert og það er augljóst að það tekur á hann að rifja þetta upp. „Maður skammaðist sín fyrir hann á sama tíma og maður stóð með honum og vildi honum allt það besta, vissum að hann var bara veikur. Þetta auðvitað tortímir manni.“

Albert vann síðasta sumar sem flugþjónn hjá Icelandair og kynntist þá mörgum af fyrrverandi vinnu­félögum föður síns. „Það töluðu allir svo ótrúlega fallega um hann, eins og hann hefði verið einhver mesti dýrlingur sem fólk hafði kynnst. Vinnufélagar pabba voru að segja mér sögur af honum og mér að fljúga með, sögur sem ég man ekkert eftir því ég á eiginlega engar minningar sem barn, ég blokkeraði þetta bara allt út og hugsa aldrei um þær.“

Mamma kletturinn

Þetta tók skiljanlega töluvert á alla fjölskylduna. „Mamma er okkar klettur. Allt sem ég er í dag er ég út af mömmu. Hún er þvílíkt sterk. Hún gerði bara það sem hún þurfti að gera, skar hann út nógu snemma og náði að halda eftir einhverjum eignum áður en hann drakk þær allar burt. Það tók auðvitað á, við fluttum fjórum sinnum en aldrei út af Nesinu. Þar er mjög gott samfélag. Þó það sé lítið og manni hafi fundist allir hafa verið með í þessu ástandi þá var líka mjög gott að eiga svona samfélag að,“ segir hann.

Þegar Albert var í Menntaskólanum í Reykjavík rakst hann stundum á pabba sinn í miðbænum í mis­slæmu ástandi. „Auðvitað var ekkert gaman að sjá pabba sinn svona.“

Var búinn að kveðja í 10 ár 

Faðir hans lést síðan í maí 2012. „Ég var úti, ætlaði að vera á Ítalíu í tvo mánuði um sumarið en fékk símtal um að hann væri á spítala og ástandið væri slæmt. Ég ákvað þá að koma viku seinna heim en hann dó þremur dögum seinna,“ segir hann alvarlegur. Baráttan var búin, vonin um að hann sneri til baka var farin. „Auðvitað héldu allir í einhverja von en við vissum öll að það var samt vonlaust. Þetta var mjög skrítið því ég var búinn að vera að kveðja í tíu ár. Á sama tíma þá er hann loksins farinn. Það var mikið högg að fatta að hann væri dáinn en líka léttir. Þetta var mjög furðuleg tilfinning. Þetta var bara búið og var kannski fyrir bestu. Hann dó allavega á spítala, ekki í einhverri holu niðrí bæ. Það var ekki lengur hangandi yfir manni þessi óþægilega tilfinning að vita ekki af honum, vita ekki hvar hann væri eða hvort hann væri lífs eða liðinn.“

Einlægur á svip segist hann oft hafa hugsað hversu mikið hann hefði viljað kynnast föður sínum eins og honum er lýst áður en Bakkus tók völdin. „Ég skammaðist mín stundum fyrir hann en vissi samt að hann var mjög góður karl og við áttum mjög margt sameiginlegt. Þetta voru mjög erfiðar tilfinningar sem brutust um. Ég hefði haft svo gaman af því að eiga hann sem pabba. Það hefði verið svo ótrúlega gaman, fara að veiða með honum og fljúga. Fokkast í bílum og fjórhjólum, þetta hefði verið geðveikt.“

Albert segist auðvitað oft hafa reynt að skilja ástand föður síns, það sé þó til lítils að reyna. „Það er ekki hægt að skilja þetta. Þetta er vissulega flóknara en að banna áfengi, ég veit það. Ég hef tekið þetta hugsanaferli svo ótrúlega langt, niðurstaðan er bara að þetta er geðsjúkdómur og hefur ekkert með efnið áfengi að gera heldur bara hið sálræna fangelsi. Auðvitað varð maður oft pirraður, það virtist vera svo auðvelt að segja bara: „Hættu að drekka – það er enn þá séns.“ Ég var ekki reiður, en ég var svekktur. Þetta var drulluleiðinlegt. Hann fékk endalausa sénsa, það vildu honum allir vel. Það voru allir til í að gera allt fyrir hann, það var bara ekki hægt.“

Hann segir að þrátt fyrir reynslu föður síns þá drekki hann sjálfur áfengi. „Ég geri mér grein fyrir að sjúkdómurinn er arfgengur og auðvitað geta allir veikst. Þetta er samt að sjálfsögðu svo miklu flóknara en að einfaldlega neyta áfengis. Það tekur auðvitað enginn ákvörðun um að verða alkóhólisti. Það að ÁTVR sé lokað á sunnudögum kemur ekki í veg fyrir það heldur. Ég leyfi mér ekki að vera hræddur við áfengi og ég er mjög meðvitaður um þetta. Ég passa mig.“



Albert segir flóknar tilfinningar fylgja því að þekkja föður sinn eins og hann gerði og heyra svo sögur af því frá öðrum hvernig hann hafi verið. Hann hefði gjarnan vilja þekkja þann mann. Fréttablaðið/Ernir
Vill læra af reynslunni 

Albert segist þó aldrei hafa dvalið við reiðina yfir því hvernig hafi farið fyrir föður hans, frekar verið pirraður. Móðir hans hafi lagt allt kapp á að koma bræðrunum til manns og veitt þeim góða æsku og þak yfir höfuðið. „Ef maður getur gert vel þá hefur maður enga afsökun fyrir að gera það ekki. Ég hef aldrei látið þetta draga mig niður. Ég vil auðvitað læra af þessu og koma reynslunni ríkari út úr þessu. Það er í rauninni ekkert hægt annað en að díla við þetta. Auðvitað markerar þetta mann en ég er ekki að fara að segja fólki úti í bæ hvernig það eigi að haga sínu lífi því ég hef svo mikla reynslu af þessu. Þessi reynsla gerir mann meira meðvitaðan um hvað maður er smár og hvað lífið er brothætt, það er margt sem getur farið úrskeiðis.“

Líkt og áður segir gegnir Albert formannsembætti í Heimdalli en auk þess er hann á þriðja ári í lögfræði við Háskóla Íslands. Hann býr með mömmu sinni og ömmu á Nesinu og segir hann það ansi notalega sambúð þó hann sé að vísu lítið heima vegna anna. „Ég hef verið í kringum flokkinn síðan ég var í MR. Ég hef alltaf stutt Sjálfstæðisflokkinn, þannig séð, út frá hugsjóninni um frelsi einstaklingsins. Síðan kynnist ég starfinu og áhuginn óx með mörgum litlum skrefum. Ég hef síðan tekið virkan þátt í starfi Vöku og í hagsmunamálum stúdenta við HÍ síðustu ár. Það að vera formaður Heimdallar er hins vegar ekki eitthvað sem mig hefur dreymt um í mörg ár.“ Hann hefur verið viðloðandi ungmennapólitíkina í nokkurn tíma og neitar því ekki að ungmennapólitíkin geti verið ansi hörð stundum. „Það getur verið mikill hasar. Og stundum mikil harka, bara rétt eins og í allri pólitík,“ segir hann.

Aðspurður hvað honum finnist um Sjálfstæðisflokkinn í dag segir hann margt þurfa að bæta þó margt sé vel gert. „Ég sé margt gott sem hægt er að gera í þessum flokki en það er líka margt slæmt sem hefur verið í gangi. Það er alltof mikið um einhverja klíkubaráttu. Ekki bara í Sjálfstæðisflokknum heldur bara í stjórnmálum almennt. Meðan það er svo mikið svigrúm til þess að gera góða hluti. Mér finnst mjög slæmt þegar kjörnir fulltrúar flokksins virðast ekki einu sinni íhuga sína stöðu þegar þeir vita að það gæti verið að þeir hafi ekki traust kjósenda. Það er alltaf verið að rembast við það að halda sínum völdum, halda sinni stöðu. Það virðist oft vera þannig að í einu skiptin sem okkar fulltrúar virkilega leggja sig á línuna þá er það fyrir eigin hagsmuni,“ segir hann.

Vill sjá breytingar 

Hann segist vilja sjá breytingar. „Fólk á ekki að vera hrætt við breytingar og að prófa eitthvað nýtt. Vaða fram. Við erum svo föst í gamla moðinu. Við erum enn þá að ræða ríkisútvarpið. Við erum enn að ræða aðskilnað ríkis og kirkju. Mál sem hafa verið á dagskrá í tugi ára. Ég vil samstarf um að hrinda þeim hlutum í verk sem við erum sammála um. Það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Hvað myndi gerast ef við myndum prófa ýmsar varíasjónir hér og þar, prófa nýjar lausnir fyrir RÚV. Horfa á nýjar lausnir í gjaldeyrismálum. Kannski full dramatísk mál en mér finnst við þurfa að tala minna og gera meira. Það er málið. Ég er þreyttur á að tala um að fara að ræða hlutina. Þetta er bitlaust. Íslensk pólitík á það til að vera getulaus. Það er allt of mikið um að þeir sem vilja taka þátt í pólitík vilji einfaldlega titil á ferilskrána. Það vantar fleira fólk með kraft og elju,“ segir Albert og gefur hvergi eftir.

„Ég held það sé líka akkúrat það sem fólk hugsar um pólitík, bæði þeir sem starfa í pólitík og þeir sem horfa á hana utan frá. Það er fáránlegt að það sé starfsgrein að vera pólitíkus. Alþingi á að endurspegla þjóðina og hafa fulltrúa á öllum aldri og öllum stigum þjóðfélagsins. Við Íslendingar eigum auðveldlega að geta verið leiðandi í mörgum málum, eins og nýsköpun, réttindum minnihlutahópa, loftslagsmálum, meðferð fíkla, almennum heilbrigðismálum og menntamálum. Nýta smæðina til þess að gera samtal þjóðarinnar við stjórnmálin sem skýrust og hrinda hlutum í framkvæmd. Þessi sjálfsögðu mál sem við ungir börðumst fyrir á landsfundi, sem þessi víðtæka sátt er um í samfélaginu. Það er stórskrítið að við séum enn að ræða þessa hluti.“

Sjálfur segist hann ekki sjá fyrir sér feril í stjórnmálum. „Nei, það held ég ekki. Allavega ef ég gerði það, þá myndi ég líklega stoppa stutt við. Ég vil einfaldlega vera minn eigin herra, skapa eitthvað og hjálpa öðrum. Ég vil sjá hlutina breytast eitthvað meðan ég er hérna annars hika ég ekki við að kúpla mig út úr þessu og gera eitthvað nýtt. Það eru næg tækifæri til að láta gott af sér leiða. Kannski að maður reyni fyrir sér í boltanum. Svona eins og nafnar mínir tveir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×