Erlent

Moskur undir smásjá lögreglu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Michel Cadot lögreglustjóri og Christophe Descoms, yfirmaður fíkniefnadeildar, skoða vopn sem hald var lagt á í París fyrir helgi.
Michel Cadot lögreglustjóri og Christophe Descoms, yfirmaður fíkniefnadeildar, skoða vopn sem hald var lagt á í París fyrir helgi. NordicPhotos/AFP
Sigmar Gabriel, vara­kanslari Þýskalands, hefur kallað eftir því að Sádi-Arabía hætti að fjármagna Wahhabi-moskur víða um heim. „Í Þýskalandi koma margir öfgamenn, sem eru jafnframt taldir hættulegir, úr þessum samfélögum,“ sagði hann í samtali við Bild am Sonntag.

Gabriel sagði að ekki mætti gera Sádi-Arabíu fráhverfa þar sem hún væri lykilríki við að binda enda á borgarastyrjöldina í Sýrlandi. „Á sama tíma verðum við að gera Sádum ljóst að við lítum ekki lengur undan.“ 

Frakkar hafa lokað þremur moskum í landinu frá því að hryðjuverkaárásirnar voru gerðar í París 13. nóvember.

Í krafti neyðarlaganna sem sett voru í Frakklandi var moskunum lokað, níu handteknir og 22 settir í farbann. Þá hefur lögreglan gert húsleit á 2.235 heimilum, hneppt 232 í gæsluvarðhald og lagt hald á 334 vopn, þar af 34 þungavopn.

Einn hæst setti ímam Frakklands, Hassan El Alaoui, sagði í samtali við Al Jazeera í síðustu viku að hann tryði því að allt að 160 moskum yrði lokað.„Af því að þær starfa án viðunandi leyfa og breiða út hatur,“ sagði hann. „Orðræða af þessu tagi ætti ekki einu sinni að vera leyfð í íslömsku ríki, hvað þá í landi á borð við Frakkland.“

Þá var gerð stunguárás í neðanjarðarlestarstöð í London í gær. Tveir særðust. Lögregla rannsakar málið sem hryðjuverk. Árásarmaðurinn, sem var handtekinn, mun hafa kallað „fyrir Sýrland“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×