Menning

Stríðið skóp hér nýtt samfélag

Magnús Guðmundsson skrifar
Páll Baldvin Baldvinsson vann í þrú ár að Stríðsárabókinni.
Páll Baldvin Baldvinsson vann í þrú ár að Stríðsárabókinni. Visir/GVA
Stríðsárin frá 1938 til 1945 eru skarpasti mótunartími íslensks samfélags frá upphafi. Fyrir skömmu kom út bókin Stríðsárin 1938-1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson. Bókin er mikil að vöxtum og í henni koma fram ýmsar nýjar og forvitnilegar upplýsingar auk fjölda áður óbirtra ljósmynda. Verkið var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrr í vikunni. Páll Baldvin segir að hann hafi byrjað á þessu verkefni í apríl fyrir þremur árum.

„Þetta var gömul hugmynd sem var búin að liggja hjá Jóhanni Páli útgefanda í nokkuð mörg ár og hann tók svo af skarið og réð mig til verksins. Ég taldi eðlilegast að þetta væri byggt upp eins mikið á samtímaheimildum og hægt væri en að sumu leyti yrði snúið aftur í það form sem Valdimar Jóhannsson og Gils Guðmundsson settu upp þegar þeir hófu að gefa út Öldina okkar 1951. En þar eru náttúrulega ekki nema kannski tíu síður lagðar undir hvert ár og markmiðið var að höggva í sama knérunn en hafa þetta miklum mun ítarlegra. Viðmiðið væri um hundrað síður á stærstu árin en síðan bólgnaði verkið út og á miðju vinnslutímabili var ljóst að það þyrfti að skera niður fyrri hlutann, árin 1941 og 1942 voru mjög efnismikil. Eftir þau minnkaði umfangið, það eru minni samfélagsátök og styrjöldin færist fjær okkur eftir því sem lengra líður þó miklir flutningar fari um Ísland á flugflotanum til innrása á meginlandið. Meðan stríðið var háð í Norður- Atlantshafinu og undan Noregsströndum var þetta afskaplega þungt og nálægt okkur en eftir innrásina í Evrópu þá færist ófriðurinn fjær.“

Bandarískir hermenn með með skráningarnúmer á hjálmunum á leið frá Reykjavík á vígvelli meginlands Evrópu 26. júní 1944.
Herbúðir nær og fjær

Páll Baldvin segir að eftir að Bandaríkjamenn koma hingað árið 1941 hafi orðið miklar breytingar. „Málið er að Bretar reistu sínar herbúðir alveg ofan í byggðinni, einfaldlega til að spara flutninga og uppbyggingu á vegum, en bandaríska herstjórnin fór hins vegar strax í að byggja sínar herstöðvar úr alfaraleið og hélt þeim meira einangruðum. Um leið og það gerðist var herinn ekki jafn mikið ofan í byggðinni eins og var á því eina og hálfa ári sem Bretar og Kanadamenn voru hérna með landher. Samgangurinn minnkaði þó ekki enda Bandaríkjamenn miklum mun fleiri en fyrstu sveitirnar sem komu hingað 1940.

Þjónusta jókst því að miklum mun og með komu Bandaríkjamanna hefst mikið velsældarskeið efnahagslega þó svo fólk hafi verið byrjað að flykkjast á mölina fyrir þann tíma. Það var meira að segja orðið þröngt um húsnæði í Reykjavík fyrir komu Bretanna en fátæktin var svo mikil í samfélaginu að það voru engin efnahagsleg tök á uppbyggingu. Þegar Bretarnir komu þá kusu þeir að leigja íbúðir fyrir sína yfirmenn, enda þeir ekki að fara að húka í óeinangruðum bröggum með óbreyttum hermönnum, þá voru þeir með tugi íbúða á leigu. Þannig að stéttaskiptingin sem var í breska hernum á þeim tíma, sem breytti svo breskum stjórnmálum í kosningunum 1945, var mjög mikil. Stéttamunurinn á milli yfirmanna og óbreyttra var gríðarlegur.“

Þekkt vetrarmynd úr Trípolí-kampi við Suðurgötu í Reykjavík.
Átök og ýfingar

Í bókinni velur Páll Baldvin þá leið að fjalla einnig um einstaklinga á meðal alþýðunnar og leitast þannig við að gefa sem besta heildarmynd af samfélaginu á þessum árum. „Mörgum hefði þótt eðlilegt að halda sig bara við hina stóru opinberu atburði, m.a. í samskiptum herliðs og almennings sem og stjórnvalda sem eru vissulega stór hluti af þessari sögu. En það var mér keppikefli að ná inn minningum og lýsingum á lífi alþýðufólks; karla, kvenna, unglinga og barna. Hernámið var svo allt um lykjandi í íslensku þjóðlífi að það snerti alla og víða um land. Þannig voru til að mynda börn frá þéttbýlum svæðum flutt svo hundruðum skipti frá bæjunum til sveitanna vegna ótta við bæði gashernað og lofthernað. Enda var flug þýskra véla hér yfir nánast daglegur viðburður lengi vel og því rökrétt að óttast að hér yrði sprengjufall. Því var ungum börnum komið úr bænum og eins til þess að forða þeim frá samskiptum við herliðið. Því her er alltaf her þó svo dagleg umgengni við herliðið hafi lengi vel verið með afar friðsamlegum hætti.

Það er ekki fyrr en stærsti hlutinn af herliðinu er bandarískt sem fara að verða árekstrar á milli heimamanna og gestanna eins og Hermann Jónasson kallaði þá. Sérstaklega verða áberandi líkamsárásir á konur og einnig átök á milli íslenskra karlmanna og hermanna, bæði með skotvopnum og hnífum. Þessar ýfingar voru nánast regla á þessum árum enda var á götunum þriggja þjóða lögreglulið, bandarískt, breskt og íslenskt, og eftir því sem velferðin eykst þá eykst skemmtanahald og áfengisneysla bæði hjá Íslendingum og hermönnunum og því fylgdu óneitanlega aukin átök.“

Pósthúsið í Camp Hálogaland þar sem reis stór braggi sem síðar var kunnur sem íþróttahúsið Hálogalanfd.
Gríðarleg samfélagsbylting

Páll Baldvin bendir líka á að farskipahluti þessarar sögu sé einnig dæmi um eitthvað sem við höfum illa náð utan um. „Það var ótrúlegur straumur af skipum hingað frá því síðla árs 1940 og allt til ársloka 1944. Á þessum tíma voru Reykjavík, Akureyri og Seyðisfjörður mjög athafnasamar hafnir bæði fyrir farskip og herskip og hingað streymir ótrúlegur fjöldi af skipum.

Hvað varðar átökin í hafinu höfum við í gegnum tíðina einblínt mikið á þau átök sem íslensk skip lentu í, m.a. einfaldlega vegna skorts á gögnum. En á síðustu árum hefur netið opnað gagnabanka sem gjörbreyta þessu og þar á meðal er vefur sem hefur skoðað kafbátaferðirnar þýsku og hefur aðsetur í Hafnarfirði og Guðmundur Helgason stýrir. Fleiri slíka alþjóðlega vefi er að finna m.a. í Bretlandi og Noregi og aðgengið að þeim upplýsingum hefur breytt gríðarlega miklu. Fram koma upplýsingar um afdrif skipa, farm, björgunarafrek Íslendinga og skipverja sem var komið með hingað vegna sjó­skaða og margt fleira.“

Þetta er á meðal þeirra nýju upplýsinga sem koma fram í þessu stóra verki eftir Pál Baldvin sem bendir á að áhrifin á íslenskt samfélag hafi verið gríðarleg. „Þetta breytti samfélaginu frá því að vera mjög staðnað fiskveiði- og landbúnaðarsamfélag í það að hér var hrundið af stað lífsgæða- og lífsháttabyltingu sem hefur staðið óslitið síðan. Við förum frá því að vera fátæklingar, allslaust barningsfólk, breytumst í bjargálna launamenn sem gera kröfur um lífsgæði sem áður voru flestum ókunn: í húsnæði, fatnaði, mat og munaðarvöru. Stríðið skóp hér nýtt samfélag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.