Menning

Mannlegt eðli og minningar

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Laufey Jónsdóttir fatahönnuður tekur þátt í Popup markaði í Hafnarhúsinu um helgina.
Laufey Jónsdóttir fatahönnuður tekur þátt í Popup markaði í Hafnarhúsinu um helgina. Vísir/Ernir
Laufey Jónsdóttir fatahönnuður útskrifaðist frá LHÍ 2007. Nú kennir hún teikningu við skólann milli þess sem hún sinnir spennandi verkefnum. Hún segir portrettteikningar áskorun.



„Ég hef unnið með marga mismunandi miðla, en ætli mitt uppáhald sé ekki blekteikningar og klippimyndir,“ segir Laufey Jónsdóttir fatahönnuður en hún hefur vakið athygli fyrir teikningar sínar.

„Portrett heilla mig því það er svo margt sem þarf að túlka; tilfinningar, ímyndir og svo framvegis. Í sýningunni PERSONA sem ég hélt fyrr á árinu voru portrettverkin byggð á viðtölum sem ég tók við viðmælendur mína um ævi þeirra og minningar. Þar var ég að skoða sjálfið, mannlegt eðli og minningar, hvernig sjálfið beygir og brýtur upp veruleikann.“

Barnabók í smíðum



„Fram undan eru tvö afar spennandi samstarfsverkefni. Samstarf við fatamerkið Magnea sem lítur dagsins ljós í byrjun næst árs og barnabók sem ég er að vinna að ásamt Önnu Margréti Björnsson blaðamanni, sem ber heitið Leynigesturinn. Þetta verður skrítin, skemmtileg og dálítið óhugnanleg saga um samband lítillar stúlku og dularfullrar veru sem býr á heimili hennar en enginn annar sér.“

Markaður í Hafnarhúsinu



„Núna er ég í óða önn að undirbúa þátttöku mína í „PopUp Verzlun – Milliliðalaus verzlun, frá hönnuði til neytandans“ sem verður á laugardaginn. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég tek þátt og ég hlakka til að standa vaktina og komast í návígi við viðskiptavini. Ég verð bæði með eldri verk og ný sem framleidd eru sérstaklega fyrir markaðinn. Meðal annars handgerð útklippiverk og silkiþrykk í takmörkuðu upplagi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.