Páll segir Fangelsismálastofnun ítrekað hafa bent yfirvöldum á að engu skili að fangelsa þessa einstaklinga sem um ræðir. „Refsing skilar engu og hefur ekki þau varnaðaráhrif sem refsingar eiga að hafa. Haldið þið að það skipti sköpum fyrir manneskju sem er að taka ákvörðun um að flýja heimalandið á fölsuðum vegabréfum að hún verði hugsanlega látin sitja inni á Íslandi í fimmtán daga?“ Dómurinn fyrir brot af þessu tagi er langoftast þrjátíu daga fangelsisvist, en að því gefnu að fólk brjóti engin agaviðurlög á meðan á vistinni stendur situr það aðeins inni í fimmtán daga.

Páll segir flesta þá sem eru handteknir einungis vera að millilenda hér á leið sinni annað. Hann segir grunsemdir oft hafa vaknað um að viðkomandi sé fórnarlamb mansals og sé sent milli landa á fölsuðum vegabréfum. Fólkið stoppar stutt við, því sé erfitt að veita því hjálp og í mörgum tilfellum eigi starfsfólk fangelsanna erfitt með að skilja viðkomandi.
„Það sem við sjáum að mörg eiga sameiginlegt er að þau eiga mjög erfitt. Fólk er illa statt. Flestir eru að flýja slæmar aðstæður og hafa engin tengsl við Ísland. Við fangelsum þetta fólk og til hvers? Það hefur engin áhrif, fólkið situr inni í 15 daga og er svo bara farið úr landi,“ segir hann.
Afplánun þessa fólks á sér stað í beinu framhaldi af gæsluvarðhaldi og því er það í forgangi að hefja afplánun.
„Við höfum velt því fyrir okkur þegar staðan er hvað erfiðust að hleypa þeim bara út. Einhvern tímann var þessi stefna mótuð að taka hart á þessu fólki og dæma það í óskilorðsbundið fangelsi.“
Flestir þeir sem teknir hafa verið við komu til landsins eru frá Nígeríu og Íran, eða 19 frá hvoru landi. Þá hafa sextán verið gripnir frá Sómalíu, fimmtán frá Albaníu, fjórtán frá Georgíu og þrettán frá Sýrlandi, svo eitthvað sé nefnt.