Vandi og vegsemd Guðmundur Andri Thorsson skrifar 14. desember 2015 10:00 Ein af forsendum þess að okkur líði bærilega í þessu samfélagi er sú að við getum borið traust til stjórnsýslunnar – þó ekki væri nema svolítið. Dæmin sanna að við eigum það til að kjósa til þings fólk sem er misvel þeim vanda vaxið. Þegar allt í einu eru komnar í valdastöður manneskjur sem augljóslega eiga ekkert erindi þangað ríður á miklu að í stjórnsýslunni – í kerfinu – séu vandaðir embættismenn sem hafa almannahag að leiðarljósi og starfa í anda þeirra laga sem störf þeirra lúta, en túlka ekki bókstafinn of einstrengingslega.Fráleitur málarekstur Tveir atburðir í síðustu viku voru átakanlegur vitnisburður um að misbrestur er á þessu og full ástæða fyrir almenning að hafa vara á sér gagnvart stjórnsýslunni hér á landi. Við sáum tvö dæmi um ákvarðanir sem urðu til einhvers staðar inni í nafnlausum myrkviðum kerfisins, en voru teknar af manneskjum af holdi og blóði, og ofbuðu báðar réttlætiskennd og sómatilfinningu almennings. Báðar ákvarðanirnar sýna okkur „kerfið“ sem fjandsamlegt, dyntótt, óskiljanlegt og óútreiknanlegt. Fyrra tilvikið varð til löngu fyrr – og fyrir alltof löngu – þegar menn á vegum lögreglu og síðar saksóknara ákveða að halda til streitu fráleitum málatilbúnaði á hendur Ástu Kristínu Andrésdóttur hjúkrunarfræðingi löngu eftir að augljóst var að sakargiftir stóðust ekki. Rannsókn leiddi fljótlega í ljós að hún bar ekki sök á dauða sjúklings – og þótt svo hefði verið myndi þar hafa verið við mannfæð og glæpsamlegt álag að sakast. Og nær að draga fjárlaganefnd fyrir dóm. En þótt sakleysi Ástu lægi fljótlega fyrir var málið engu að síður látið malla áfram í óskiljanlegu ferli hjá yfirvöldum og í heil þrjú ár vofði þessi fráleita ákæra yfir Ástu. Málinu var réttilega vísað frá í héraðsdómi og Ásta Kristín sýknuð af öllum ákærum, en samt hefur ekki enn frést af því að saksóknari ætli að falla frá áfrýjun til Hæstaréttar, rétt eins og þar á bæ þyki mönnum ekki nóg að gert, drátturinn ekki hafa verið alveg nægur, og enn skuli Ásta dregin á því að fagna endanlegum lyktum þessa ömurlega máls – enn sé einhver þar innandyra sem ekki getur horfst í augu við að hafa tekið ranga ákvörðun um ákæru. Enn hef ég ekki séð neinn í fjölmiðlum þurfa að svara fyrir þennan málatilbúnað.„En það bar til um þessar mundir?…“ Hitt málið er svo óskaplegt að vart er hægt að tala um það. Langveikur drengur frá Albaníu er rekinn út á guð og gaddinn. Ekki er ráðgast við lækna. Að mati „kerfisins“ hafði hann það ekki alveg nógu slæmt til að íslensk miskunn næði til hans. Fjölskyldan var dregin á svari og smám saman vakna vonir um að hún fái hér skjól, enda mælir allt með því og ekkert gegn því– en nei: það stendur í fyrsta boðorðinu hjá Útlendingastofnun að aldrei megi veita Albönum skjól. Þeir hafa það víst svo gott í Albaníu – þar er nefnilega svo mikil einkavæðing. Fjölskyldan hafði komið sér vel fyrir í grónu hverfi, heimilisfaðirinn vel látinn múrari í góðri stöðu, börnin í skóla; og drengurinn þarf á læknisþjónustu að halda. Því er þessi albanska fjölskylda komin hingað: þau deila ekki skoðun Ásdísar Höllu sem hefur látið hafa eftir sér að albanskt heilbrigðiskerfi sé „ljósárum á undan okkar“, af því að þar er svo mikil einkavæðing. Engu var líkara en að lögð væri áhersla á sem óhugnanlegasta sviðsetningu á því myrkraverki að vísa þessu nauðleitarfólki burt frá Íslandi. Þetta var eins og uppsetning Útlendingastofnunar á sinni útgáfu af helgileiknum sem við vorum látin leika á aðventunni í Vogaskóla þegar ég var barn. „En það bar til um þessar mundir…“ Myndin af litla drengnum með tuskubangsann sinn á leið út í myrkrið og kuldann verður greypt í minni okkar allra um ókomin ár og mun í hvert sinn sem hún kemur í hugann vekja með okkur sára skömm yfir því að vera Íslendingar; að hafa látið Útlendingastofnun fara sínu fram af slíkri rangsleitni, í okkar nafni. Augljóst er að þar innan veggja er starfað eftir einstrengingslegum túlkunum á fremur einstrengingslegum lagabókstaf, sem þó gefur svigrúm til að veita fólki hæli hér á landi af mannúðarástæðum, auk þess sem barnasáttmáli SÞ ætti þarna að koma til álita.Slíkar ástæður eru ekki taldar ná til langveikra barna að mati þessarar stofnunar. Við þurfum að fara að endurskoða þá römmu einangrunarhyggju sem liggur til grundvallar stefnu Íslendinga í innflytjendamálum því að hún endurspeglar ekki þankagang samfélagsins. Við þurfum að endurskoða þá reglu að enginn megi flytjast til Íslands, nema vera annaðhvort á vegum starfsmannaleigu eða vera kvótaflóttamaður undan stríði, vandlega valinn. Sigurður Nordal talaði um „vanda þess og vegsemd að vera Íslendingur“. Haldist Útlendingastofnun uppi að starfa áfram óáreitt í þeim ómannúðlega forneskjuanda sem aftur og aftur gengur fram af þjóðinni, fer að verða tímabært að tala um vanda þess og vansæmd að vera Íslendingur. Íslensk menning þolir alls konar fólk. Hér er nóg pláss. Sú menning sem einungis þrífst í einangrun og fásinni er dauðanum merkt og á ekki framtíð fyrir sér. Sú menningarþjóð sem ekki þolir sambýli við annars konar venjur, siði, átrúnað og listir stendur ekki undir nafni sem slík. Það er hvorki vandi né vegsemd að vera Íslendingur. Það þarf ekki annað til en að búa hérna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Glundroði Sjálfstæðisflokksins bitnar á hagstjórn og innviðum Árni Rúnar Þorvaldsson Skoðun
Ein af forsendum þess að okkur líði bærilega í þessu samfélagi er sú að við getum borið traust til stjórnsýslunnar – þó ekki væri nema svolítið. Dæmin sanna að við eigum það til að kjósa til þings fólk sem er misvel þeim vanda vaxið. Þegar allt í einu eru komnar í valdastöður manneskjur sem augljóslega eiga ekkert erindi þangað ríður á miklu að í stjórnsýslunni – í kerfinu – séu vandaðir embættismenn sem hafa almannahag að leiðarljósi og starfa í anda þeirra laga sem störf þeirra lúta, en túlka ekki bókstafinn of einstrengingslega.Fráleitur málarekstur Tveir atburðir í síðustu viku voru átakanlegur vitnisburður um að misbrestur er á þessu og full ástæða fyrir almenning að hafa vara á sér gagnvart stjórnsýslunni hér á landi. Við sáum tvö dæmi um ákvarðanir sem urðu til einhvers staðar inni í nafnlausum myrkviðum kerfisins, en voru teknar af manneskjum af holdi og blóði, og ofbuðu báðar réttlætiskennd og sómatilfinningu almennings. Báðar ákvarðanirnar sýna okkur „kerfið“ sem fjandsamlegt, dyntótt, óskiljanlegt og óútreiknanlegt. Fyrra tilvikið varð til löngu fyrr – og fyrir alltof löngu – þegar menn á vegum lögreglu og síðar saksóknara ákveða að halda til streitu fráleitum málatilbúnaði á hendur Ástu Kristínu Andrésdóttur hjúkrunarfræðingi löngu eftir að augljóst var að sakargiftir stóðust ekki. Rannsókn leiddi fljótlega í ljós að hún bar ekki sök á dauða sjúklings – og þótt svo hefði verið myndi þar hafa verið við mannfæð og glæpsamlegt álag að sakast. Og nær að draga fjárlaganefnd fyrir dóm. En þótt sakleysi Ástu lægi fljótlega fyrir var málið engu að síður látið malla áfram í óskiljanlegu ferli hjá yfirvöldum og í heil þrjú ár vofði þessi fráleita ákæra yfir Ástu. Málinu var réttilega vísað frá í héraðsdómi og Ásta Kristín sýknuð af öllum ákærum, en samt hefur ekki enn frést af því að saksóknari ætli að falla frá áfrýjun til Hæstaréttar, rétt eins og þar á bæ þyki mönnum ekki nóg að gert, drátturinn ekki hafa verið alveg nægur, og enn skuli Ásta dregin á því að fagna endanlegum lyktum þessa ömurlega máls – enn sé einhver þar innandyra sem ekki getur horfst í augu við að hafa tekið ranga ákvörðun um ákæru. Enn hef ég ekki séð neinn í fjölmiðlum þurfa að svara fyrir þennan málatilbúnað.„En það bar til um þessar mundir?…“ Hitt málið er svo óskaplegt að vart er hægt að tala um það. Langveikur drengur frá Albaníu er rekinn út á guð og gaddinn. Ekki er ráðgast við lækna. Að mati „kerfisins“ hafði hann það ekki alveg nógu slæmt til að íslensk miskunn næði til hans. Fjölskyldan var dregin á svari og smám saman vakna vonir um að hún fái hér skjól, enda mælir allt með því og ekkert gegn því– en nei: það stendur í fyrsta boðorðinu hjá Útlendingastofnun að aldrei megi veita Albönum skjól. Þeir hafa það víst svo gott í Albaníu – þar er nefnilega svo mikil einkavæðing. Fjölskyldan hafði komið sér vel fyrir í grónu hverfi, heimilisfaðirinn vel látinn múrari í góðri stöðu, börnin í skóla; og drengurinn þarf á læknisþjónustu að halda. Því er þessi albanska fjölskylda komin hingað: þau deila ekki skoðun Ásdísar Höllu sem hefur látið hafa eftir sér að albanskt heilbrigðiskerfi sé „ljósárum á undan okkar“, af því að þar er svo mikil einkavæðing. Engu var líkara en að lögð væri áhersla á sem óhugnanlegasta sviðsetningu á því myrkraverki að vísa þessu nauðleitarfólki burt frá Íslandi. Þetta var eins og uppsetning Útlendingastofnunar á sinni útgáfu af helgileiknum sem við vorum látin leika á aðventunni í Vogaskóla þegar ég var barn. „En það bar til um þessar mundir…“ Myndin af litla drengnum með tuskubangsann sinn á leið út í myrkrið og kuldann verður greypt í minni okkar allra um ókomin ár og mun í hvert sinn sem hún kemur í hugann vekja með okkur sára skömm yfir því að vera Íslendingar; að hafa látið Útlendingastofnun fara sínu fram af slíkri rangsleitni, í okkar nafni. Augljóst er að þar innan veggja er starfað eftir einstrengingslegum túlkunum á fremur einstrengingslegum lagabókstaf, sem þó gefur svigrúm til að veita fólki hæli hér á landi af mannúðarástæðum, auk þess sem barnasáttmáli SÞ ætti þarna að koma til álita.Slíkar ástæður eru ekki taldar ná til langveikra barna að mati þessarar stofnunar. Við þurfum að fara að endurskoða þá römmu einangrunarhyggju sem liggur til grundvallar stefnu Íslendinga í innflytjendamálum því að hún endurspeglar ekki þankagang samfélagsins. Við þurfum að endurskoða þá reglu að enginn megi flytjast til Íslands, nema vera annaðhvort á vegum starfsmannaleigu eða vera kvótaflóttamaður undan stríði, vandlega valinn. Sigurður Nordal talaði um „vanda þess og vegsemd að vera Íslendingur“. Haldist Útlendingastofnun uppi að starfa áfram óáreitt í þeim ómannúðlega forneskjuanda sem aftur og aftur gengur fram af þjóðinni, fer að verða tímabært að tala um vanda þess og vansæmd að vera Íslendingur. Íslensk menning þolir alls konar fólk. Hér er nóg pláss. Sú menning sem einungis þrífst í einangrun og fásinni er dauðanum merkt og á ekki framtíð fyrir sér. Sú menningarþjóð sem ekki þolir sambýli við annars konar venjur, siði, átrúnað og listir stendur ekki undir nafni sem slík. Það er hvorki vandi né vegsemd að vera Íslendingur. Það þarf ekki annað til en að búa hérna.
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun