Menning

Mikilvægt að taka slaginn

Fréttablaðið/Anton Brink
"Bókina Leitin að tilgangi unglingsins skrifaði ég í samstarfi við tvo unglinga, þá Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson. Þeir skrifuðu leikritið Unglingurinn sem sýnt var í Gaflaraleikhúsinu. Ég sá sýninguna og hafði samband í kjölfarið, spurði hvenær unglingabókin þeirra kæmi út. Ég bjóst bara við því að þeir væru að vinna að bók þar sem þeir hafa svo mikinn sköpunarkraft og gjörsamlega sturlað ímyndunarafl,“ segir Bryndís Björgvinsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur, um nýjustu bók sína, en þeir Arnór og Óli voru aðeins 15 og 16 ára gamlir þegar bókin var skrifuð.

Gjöfult samstarf

Í ljós koma að Arnór og Óli höfðu ekki einu sinni leitt hugann að því að skrifa bók. „Samstarfið hófst snemma í vor og það fyrsta sem þeir sögðu var að þeir væru báðir með athyglisbrest og læsu lítið – en á sama tíma vildu þeir vinna nýtt verk um unglinga frá grunni. Ég fékk smá sjokk en engu að síður rættist úr samstarfinu og í raun er þetta eitt magnaðasta samstarf sem ég hef verið í,“ segir Bryndís en bókin var unnin á óvenjulegan hátt.

„Þeir mættu aldrei með tölvurnar sínar. Þeir stóðu helst úti á gólfi og spunnu á meðan ég skrifaði. Því má segja að bókin sé unnin með bæði verkfærum leikhússins og hefðbundinna ritstarfa. Frásögnin sjálf er reyndar óvenjuleg líka, en sagan fjallar um þá Arnór og Óla að skrifa sögu. Um leið og þetta er skáldsaga um unglinga þá er bókin líka eins konar fræðslurit um unglingsárin og skapandi skrif. Arnór og Óli stíga reglulega inn í söguna, ræða um hana, það sem er að gerast og ákveða næstu skref. Þeir sem lesa hana fá því innsýn í uppbyggingu sagna og hvað þarf að hafa í huga til þess að búa til sögu. Svo má líka segja að sagan sjálf sé með athyglisbrest, en hún á að höfða bæði til þeirra sem lesa lítið og mikið.

Sjálf er ég kennari og hef mikinn áhuga á skapandi skrifum og lestri – ég vil helst glæða áhuga unglinga á lestri og skrifum. Fá þá til að sjá að texti getur verið skapandi, gefandi, fyndinn og spennandi,“ segir Bryndís sem er kennari við Listaháskóla Íslands.

Unglingsárin heillandi

Bryndís hefur áður skrifað bækurnar Flugan sem stöðvaði stríðið og Hafnfirðingabrandarinn.

„Þetta eru allt ólíkar bækur. Flugan er ævintýri og fjallar um stríð og frið. Ég hafði sjálf miklar áhyggjur af stríðum sem barn – og hef reyndar enn. Börn fylgjast með fréttum og fjölmiðlum og botna ekkert í því hvernig fullorðið fólk getur hagað sér. Oft í algjörri andstöðu við þau gildi og hugsjónir sem við höldum að börnum.

Hafnfirðingabrandarinn er hins vegar miklu lágstemmdari og hversdagslegri saga en engu að síður getur hversdagurinn verið mjög furðulegur og skrítinn. Manneskjan sjálf er svo flókin og samskipti við annað fólk eru það einnig.

Í Leitinni að tilgangi unglingsins erum við svo meira að leika okkur með bókarformið og mismunandi textaform, en sú bók er alveg á mörkum þess að vera bók, kvikmynd, leikrit eða jafnvel uppistand. Sem dæmi má nefna þá er einn söngleikjakafli í bókinni, fræðslukafli um tungutak unglinga og kreditlisti aftast.“

Bryndísi finnst unglingsárin vera heillandi viðfangsefni. „Á Íslandi er alltaf þörf á nýjum barna- og unglingabókum, sem endurspegla nærsamfélagið og fjalla um það. Það er mikilvægt að sýna börnum og unglingum hvernig má bregða á leik með tungumálið og sjá hversdagsmenningu okkar og nánasta umhverfi frá mismunandi sjónarhornum. Persónulega finnst mér unglingsárin spennandi þar sem unglingurinn stendur á mörkum þess að vera barn og fullorðinn. Þá er auðvelt að velta upp alls konar spurningum um lífið, samfélagið og sjálfsímyndina.

Nú á dögum tala líka margir um sig sem eilífðarunglinga. Í raun er unglingurinn svolítið tákn fyrir samtímamanninn sem er alltaf að ganga í gegnum breytingar. Við erum aldrei á þeim stað í lífinu að allt er fast undir fótum okkar. Mín kynslóð hefur til dæmis þurft að læra að taka miklum breytingum og aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Það er sjaldgæft að fólk vinni sömu vinnuna til lengri tíma – fái það þá fasta vinnu yfirhöfuð – eða búi á sama staðnum. Einu sinni hélt maður að lífið væri komið á fastan stað um þrítugt en núna er maður að reka sig á að það eru alltaf einhverjar krossgötur fram undan,“ segir hún hugsi.

Sögur spegla sálarlíf fólks

Bryndís lærði sagnfræði og þjóðfræði í Háskóla Íslands. Hún hefur nýtt sér menntunina í störfum sínum og segir gagnlegt að blanda fræðunum saman við skapandi skrif. Fólk eigi að vera óhræddara við fræðin því þau séu líka gefandi eins og listin. „Skólaganga mín kann að virðast sundurleit en í rauninni er þetta allt það sama – áhugi á sögum. Ég færði mig úr mannkynssögunni yfir í þjóðfræðina þar sem við vorum meira að pæla í sögunum í hversdagsmenningunni – bröndurum, flökkusögnum og þjóðsögnum. Þaðan færði ég mig yfir í ritlistina þar sem maður nær að þenja sig enn þá meira út. Þá má allt í einu fara að flétta þessu öllu saman með eigin aðferðum, drama og húmor.“

Bryndís með þeim Arnóri og Óla.


Hvers kyns sögur eru Bryndísi mjög hugleiknar. „Ég hef áhuga á að skoða hverju sögur koma á framfæri – og hvernig þær hjálpa okkur til að skilja heiminn og náungann betur. Fólk er stanslaust að segja sögur og í raun finnst mér ekki áhugavert að spyrja það hvað sé satt og logið þegar kemur að sögum. Þegar það kemur að drauga- og álfasögum þá er til að mynda gagnslaust að spyrja hvort álfar eða draugar séu til eða ekki. Áhugaverðara er að skoða hvað slíkar sögur segja um heimsmynd okkar og sjálfsímynd. Um ótta okkar, vonir og drauma. Sögurnar endurspegla sálarlíf mannsins og upplifun hans af heiminum. Einhver þjóðfræðingurinn hefur líklegast hamrað þetta inn í höfuðið á mér, að þegar svona fyrirbæri eru skoðuð er spurningin „hvernig?“ mun frjórri og áhugaverðari en spurningin „hvort?“.“

Útlit álfanna þróast

Núna vinnur Bryndís að þáttunum Reimleikar ásamt Rakel Garðarsdóttur sem sýndir verða á RÚV á næsta ári. „Þættirnir fjalla um reimleika í sinni víðustu mynd. Reimleikarnir eru ekki bara utan við okkur heldur líka inni í okkur. Tengingin þarna á milli er mjög sterk,“ segir Bryndís og bendir á að áhugi fólks á því yfirnáttúrulega sé tilkominn vegna þess að sumt er ofar okkar skilningi og enn hefur ekki öllum spurningum okkar verið svarað.

„Við höldum stanslaust áfram að leita svara og reynum að finna tengingar til að geta kortlagt bæði okkar eigið sálarlíf og heiminn fyrir utan okkur. Þessi leit getur birst okkur í draugasögum, álfasögum, skáldskap eða stríðsátökum eða hverju sem er. Það sem mér finnst svo dásamlegt en um leið hryllilegt við manneskjuna eru öll þessi fyrirbæri sem hún hefur búið til í kringum sig vegna þess að hún þolir enga óvissu. Hún á svo auðvelt með að óttast og reynir því stanslaust að finna útskýringar á öllu.“ 

Bryndís segist ekki halda að Íslendingar trúi frekar á yfirnáttúruleg fyrirbæri en aðrir því að í öllum samfélögum megi finna einhvers konar hjátrú. „Draugatrú er til dæmis mjög sterk í Bretlandi og geimverurnar eru vinsælar í Bandaríkjunum en hvort tveggja draugar og geimverur geta komið í staðinn fyrir álfa- eða tröllatrú Íslendinga. Þetta er í raun sama trúin þó að birtingarmyndin sé ekki alveg eins. Þetta er trú á að annars konar líf þrífist í heiminum sem er ekki undir­orpið sömu skilyrðum og okkar líf – eins og dauðanum og hefðbundnum gangi tímans. Allar þessar verur birta okkur tilvist handan lífs og dauða mannsins og standa um leið fyrir einhvers konar tímaflakk eða tímaleysi.“ 

Bryndís segir að gaman sé að skoða hvernig útlit þessara vera breytist með breyttum tíðaranda og alþjóðavæðingu. „Íslensk þjóðtrú verður alltaf fyrir áhrifum annars staðar frá – og hefur alltaf gert. Álfarnir sem fólk verður vart við á Íslandi í dag eru talsvert ólíkir þeim álfum sem lýst er í þjóðsögum gamla sveitasamfélagsins. Nú verður fólk til dæmis meira vart við blómálfa en blómálfar eru mjög ólíkir hinum hávöxnu spengilegu álfum þjóðsagnanna. Ásýnd breytist og draugarnir eru orðnir „ameríkaníseraðri“ eða jafnvel japanskari – enda hafa japanskar hryllingsmyndir verið frekar vinsælar. Sumir myndu segja að það sé af því að þessi fyrirbæri eru ekkert annað en endurspeglun á okkur sjálfum. Okkur sem erum líka að breytast og verða fyrir áhrifum af því sem við neytum og njótum,“ segir hún.

Finnst umræðan hafa batnað 

Bryndís vakti mikla athygli á dögunum þegar hún stofnaði Facebook-hópinn Kæra Eygló – Sýrland kallar. Þar buðust þúsundir Íslendinga til að aðstoða flóttamenn fengju þeir að koma til landsins. Fjölmargir stórir erlendir fjölmiðlar fjölluðu um framtakið. 

„Ég ákvað að taka slaginn því mér sýndist hann geta haft góð áhrif á umræðuna og vonandi á líf einhverra. Mér finnst umræðan hafa batnað en á sama tíma þá er ég líka hrædd um að þetta verkefni hafi orðið að eins konar „jákvæðri“ ímyndarsköpun sem ekki er innistæða fyrir. Erlendu fjölmiðlarnir lofuðu Íslendinga fyrir góðmennskuna en á sama tíma höfum við tekið á móti skammarlega fáum flóttamönnum og hælisleitendum í gegnum tíðina eða um það bil 600 manns síðan árið 1956. 

Við verðum að fara að sjá stórar raunverulegar breytingar, bæði hvað varðar hvað við samþykjum marga flóttamenn og hælisleitendur en líka varðandi viðbragðsflýti og ábyrgð. Það gengur ekki lengur að kerfið sé svona stirt og fráhrindandi. Það þarf að endurskoða þessa ferla og minnka flækjustig,“ segir hún.



Hvers konar sögur eru Bryndísi hugleiknar. Fréttablaðið/Anton Brink
Sama fordómatuggan

Viðbrögðin við hópnum komu Bryndísi á óvart. „Í ljós kom að margir þarna úti vildu gera betur í þessum málum. Þessar raddir hafa kannski ekki heyrst því á netinu er umræðan oft neikvæð enda er auðvelt að vera neikvæður. Það tekur alltaf meiri tíma og elju að ætla að útskýra, byggja upp og hugsa í lausnum. Maður þarf að leggja sig meira fram við slíkt, en um leið og það var kominn rammi fyrir fólk til að tjá sig á slíkum nótum létu viðbrögðin ekki á sér standa.“

Þrátt fyrir að umræðan um flóttamenn virðist oft vera á neikvæðum nótum þá segist Bryndís ekki halda að það sé mjög stór hópur sem sé á móti hingaðkomu flóttamanna en hann kunni þó að vera háværari.

„Mér finnst það koma betur og betur í ljós að þeir sem eru neikvæðir út í flóttafólk og hælisleitendur óttast breytingar. Ég hef aldrei heyrt neitt frumlegt eða nýtt úr þeim ranni,“ segir hún. 

Mörgum hefur fundist umræðan um flóttafólk hafa harðnað og orðið fordómafyllri eftir hryðjuverkaárásirnar í París. Bryndís er ekki sammála því. „Mér finnst hún ekki hafa fallið í þá gryfju að verða fordómafull þótt auðvitað séu þeir sem voru óttaslegnir hræddir áfram. Það eru flestir orðnir það upplýstir í dag að þeir vita að þeir sem framkvæmdu hroðaverkin í París eru sömu mennirnir og sýrlensku flóttamennirnir eru að flýja frá. Maður sér strax að það er hugsunarvilla að halda því fram, að það sé sama fólkið sem er að flýja og er að leggja Sýrland í rúst.“

Baráttan er ekki búin og segist Bryndís vonast til þess að breytingar verði gerðar til frambúðar á því hvernig sé tekið á móti flóttafólki. „Það er líka mikilvægt að halda áfram að breyta umræðunni og hafa hugfast að við þurfum hvert á öðru að halda. „Flóttafólk er mannauður. Íslendingar eru svo gjarnir á að hugsa bara um erlent fólk sem vinnuafl – fólk sem eigi að vinna vinnu sem Íslendingar vilja ekki sinna því annars séu þeir að „taka“ eitthvað frá okkur.

Það sem vantar á Íslandi er að hér séu töluð fleiri tungumál, hér sé víðari þekking og breiðari samræða. Það eru margir sem óttast fjölmenningu en á sama tíma viljum við fara til erlendra stórborga og njóta fjölmenningarsamfélaga þar. 

Annar punktur í þessu er sá að svona lítur framtíðin út – hvort sem fólk vill sætta sig við það strax eða ekki. Og þá er spurningin: hvernig ætlum við að gera þetta vel? Ætlum við að vera klár? Enn og aftur er spurningin ekki „hvort“ heldur „hvernig“. Og þá er ágætt að hafa það í huga að við getum öll orðið flóttamenn, Íslendingar líka, til dæmis vegna náttúruhamfara. Hver einasti samfélagshópur í heiminum á á hættu að umbreytast í flóttafólk.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×