Lífið

Madonna hélt óvænta samstöðutónleika á Lýðveldistorginu í París

Birgir Olgeirsson skrifar
Madonna ásamt syni sínum David Banda og gítarleikaranum Monte Pittman á Lýðveldistorginu í París í gærkvöldi.
Madonna ásamt syni sínum David Banda og gítarleikaranum Monte Pittman á Lýðveldistorginu í París í gærkvöldi. Vísir/Youtube
Bandaríska tónlistarkonan Madonna hélt óvænta samstöðutónleika á Lýðveldistorginu, Place de la Republique, í París, Frakklandi, í gærkvöldi. Hún hafði nýlokið við að spila á uppseldum tónleikum á AccorHotels-leikvanginum þegar hún sendi út boð til aðdáenda sinna á Twitter um að mæta við minnisvarða á torginu um hryðjuverkaárásir í borginni 13. nóvember síðastliðinn.

Fljótlega myndaðist stór hópur á torginu og tóku myndbönd og ljósmyndir að birtast á samfélagsmiðlum þar sem Madonna sást syngja sín eigin lög og einnig Imagine ef John Lennon.

@Madonna love for Paris... #imagine

A video posted by Guy Oseary (@guyoseary) on

Á Instagram-síðu sinni sagðist Madonna hafa sungið friðarlög með syni sínum David Banda og gítarleikaranum Monte Pittman.

Á tónleikum í Stokkhólmi í Svíþjóð, skömmu eftir árásirnar í París, greindi Madonna frá því hvers vegna hún ætlaði að halda Evróputúr sínum áfram. 

„Ég er á báðum áttum. Ég er hugsi yfir því hvers vegna ég er hér að dansa og skemmta mér á meðan aðrir syrgja ástvini sína. Það er hins vegar ætlunarverk þessa fólks. Það vill þagga niður í okkur. Og við megum ekki láta það gerast.“

Hún bað því næst um mínútu þögn til minningar um fórnarlömb árásanna í París áður en hún hóf að syngja lag sitt Like a Prayer.

Hún söng það lag einmitt í gærkvöldi en eftir flutninginn sendi hún fingurkossa til áhorfenda og hrópaði: Friður!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.