Erlent

Einn árásarmannanna í París lagður í ómerkta gröf

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá lögregluaðgerðum í París eftir árásirnar.
Frá lögregluaðgerðum í París eftir árásirnar. Vísir/EPA
Einn hryðjuverkamannanna sem gerði árás á Bataclan-tónleikahöllina í París í nóvember var á aðfangadagskvöld lagður í ómerkta gröf í norðurhluta borgarinnar.

Hinn 28 ára Samy Amimour var einn þriggja sem gerði sjálfsmorðsárás á höllina, þar sem níutíu manns létu lífið, og er talinn sá fyrsti sem borinn er til grafar.

Að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins var þess vandlega gætt að almenningur kæmist ekki að því hvar Amimour er grafinn þar sem talið er að gröf hans gæti annars orðið að einhvers konar helgistað eða skotmark fyrir skemmdarverk og árásir.

Alls létust 130 manns í hryðjuverkaárásunum í París. Lögregla í Belgíu handtók á aðfangadag mann sem grunaður er um aðild að árásunum og er hann sá níundi sem liggur nú undir grun um að hafa komið að þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×