Lögregluyfirvöld í Belgíu hafa handtekið mann sem grunaður er um aðild að hryðjuverkaárásunum í París þann 13. nóvember síðastliðinn þar sem 130 manns létust. Alls liggja því níu menn undir grun nú um að hafa komið með einhverjum hætti að árásunum.
Litlar upplýsingar hafa verið gefnar upp varðandi það hvaða hlutverk maðurinn, Abdoullah C, hafði í árásunum. Þó hefur lögreglan upplýst að Abdelhamid Abaaouad, sem talinn er einn af höfuðpaurum árásanna, hringdi í Abdoullah skömmu eftir að árásirnar voru gerðar en þeir voru frændur.
Abaaoud lést í lögregluaðgerð í París þann 18. nóvember síðastliðinn ásamt frænda sínum Hasna Aitboulahcen sem dó einnig, en Aitboulahaen og Abdoullah töluðu nokkrum sinnum saman í síma bæði fyrir og eftir árásirnar.
Fram kemur í frétt BBC að lögregluyfirvöld hafi ekki tilkynnt um handtöku Abdoullah strax þar sem þau vildu ekki gera hugsanlegum samverkamönnum viðvart en enn er leitað að Salah Abdeslam sem talinn er einn af lykilmönnunum á bak við árásirnar.
Erlent