Menning

Silfursmíði fyrri alda og orðusafn frú Vigdísar

Magnús Guðmundsdóttir skrifar
Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, flytur opinn fyrirlestur um íslenska silfursmíði.
Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, flytur opinn fyrirlestur um íslenska silfursmíði. Vísir/valli
Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, sem kannað hefur íslenska silfursmíð á fyrri tíð, mun halda fyrirlestur í Hönnunarsafni Íslands í kvöld klukkan 20.

Þór mun í erindi sínu einkum fjalla um íslenska silfursmíði á 18. og 19. öld í tengslum við sýninguna Prýði, þar sem sýnd eru verk eftir íslenska gullsmiði í tilefni af 90 ára afmæli félagsins á liðnu ári. Í safninu stendur einnig yfir sýningin Ertu tilbúin frú forseti?

Á sunnudaginn klukkan 14 munu svo gullsmiðirnir Þorbergur Halldórsson og Ásmundur Kristjánsson ganga um yfirstandandi sýningar Hönnunarsafnsins í fylgd Hörpu Þórsdóttur forstöðumanns.

Í spjalli þeirra verður fjallað sérstaklega um smíði hinnar íslensku fálkaorðu og orðusafn frú Vigdísar Finnbogadóttur skoðað, en Þorbergur er fálkaorðusmiður okkar Íslendinga.

Ásmundur Kristjánsson mun fjalla um búningaskart og víravirki og segja frá smíði þess og verkefnum sem fyrirtæki hans, Annríki, sinnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×