Menning

Sekkjapípuleikari kemur fram á skoskri menningarhátíð

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hanna Tuulikki  kemur fram á skosku menningarhátíðinni.
Hanna Tuulikki kemur fram á skosku menningarhátíðinni.
Í dag hefst hin árlega skoska menningarhátíð á Kexi Hosteli, en hátíðin er nú haldin í fjórða sinn í samstarfi við Edinborgarfélagið á Íslandi og Icelandair.

Í Skotlandi er árlega haldið upp á afmælisdag skáldsins Roberts Burns og afmæli hans fagnað með skoskum mat, drykk, tónlist og ljóðlist Burns.

Skáldjöfurinn var fæddur þann 25. janúar árið 1759 og er víða litið á hann sem þjóðarskáld Skota.

Skoski sekkjapípuleikarinn Mr. Russell Mechan kemur fram og sér til þess að hátíðarhöldin fari fram í samræmi við hefðir og reglur, en einnig munu hljómsveitirnar Two Wings, Ben Reynolds & Guests og tónlistarkonan Hanna Tuulikki koma fram.

Veitingastaður Kex Hostels, Sæmundur í sparifötunum, mun bjóða upp á sérstakan matseðil vegna hátíðarinnar.

Boðið verður upp á haggis með stöppuðum kartöflum, rófum, næpum og viskísósu. Haggis, sem lýsa má sem skoskri útgáfu sláturs, er nátengt Burns en hann samdi ljóðið Address to a Haggis árið 1786 og er skoska slátrið órjúfanlegur hluti hátíðarhalda í tengslum við afmæli skáldsins.

Skoska menningarhátíðin hefst í kvöld klukkan sjö á Kexi Hosteli við Skúlagötu og stendur til 24. janúar næstkomandi. Dagskrána er hægt að nálgast á vefsíðunni Kexland.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×