Innlent

Nornahraun heldur áfram að þykkna

svavar hávarðsson skrifar
Þykknar jafnt og þétt eftir að dregur úr eldgosinu í Holuhrauni.
Þykknar jafnt og þétt eftir að dregur úr eldgosinu í Holuhrauni. Mynd/gropedersen
Sýnileg virkni í eldstöðinni í Holuhrauni var með minnsta móti þegar vísindamenn dvöldu norðan Vatnajökuls við mælingar í liðinni viku. Ýtarlegar mælingar á hrauninu úr lofti á tímabilinu 30. desember til 21. janúar sýna að hraunið hefur þykknað mikið á þessum þremur vikum. Rúmmál þess er nú orðið 1,4 rúmkílómetrar.

Hraunrennslið á meðan mælingarnar stóðu yfir var tæplega hundrað rúmmetrar á sekúndu. Eins og komið hefur fram dregur því hægt úr ákafa gossins en vonast er til að hægt verði að mæla stærð hraunsins á ný seinna í þessari viku og fást þá nýjar tölur um hraunflæðið.

Mikil jarðskjálftavirkni er enn í Bárðarbungu. Alls hafa mælst um 150 skjálftar í Bárðarbungu frá því á föstudag þar til í gær. Ekki hefur mælst skjálfti yfir 5,0 að stærð frá 8. janúar.

Í kvikuganginum hafa mælst um 50 skjálftar frá því á föstudag. Flestir skjálftanna eru undir 1,0 að stærð.

GPS-mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu. Enn dregur þó úr hraða samdráttarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×