Rangur póll í bankamálum Þorvaldur Gylfason skrifar 5. febrúar 2015 07:00 Frá hruni og raunar lengur hefur verðtrygging húsnæðislána og annarra neyzlulána sætt harðri gagnrýni, m.a. með þeim rökum, að hún sé ranglát. Ranglætið er, að lántakendur bera einir skaðann, þegar verðlag snarhækkar og kaupgjald stendur í stað eða jafnvel lækkar eins og gerðist 2008-2010. Þá þyngist greiðslubyrði lántakenda, en hagur lánveitenda af slíkum lánasamningum skerðist ekki. Lýðræðisvaktin lagði til lausn á vandanum fyrir kosningarnar 2013, en fáir sýndu henni áhuga. Vandi verðtryggingarinnar felst ekki í hugmyndinni, sem að baki býr: Takirðu lamb að láni, þá skilarðu lambi, ekki bara framparti. Vandinn liggur í framkvæmdinni, sem leggur áhættu á lántakandann einan og hlífir lánveitandanum og kann jafnvel með því móti að stangast á við neytendaverndarlög, svo sem tekizt er nú á um fyrir dómstólum. Tillaga Lýðræðisvaktarinnar fól í sér jafnari áhættuskiptingu skv. þeirri skoðun, að miklar skuldir eru ekki aðeins á ábyrgð lántakandans, heldur einnig lánveitandans (sjá xlvaktin.is). Ósanngjarnt er, að öll áhætta vegna verðbreytinga falli á annan aðila lánssamnings. Vandinn er ekki úr sögunni. Margt sýnist nú benda til, að kjarasamningar fari úr böndum á næstum mánuðum. Því veldur m.a. ógætileg og ögrandi framganga vinnuveitenda, sem hafa hækkað laun forstjóra langt umfram önnur laun, og einnig framganga ríkisstjórnarinnar (t.d. afnám hækkunar veiðigjalds) og seðlabankans (t.d. málaferli bankastjórans gegn bankanum vegna launadeilu). Af þessum atvikum leiðir umtalsverða hættu á verðbólgu með tilheyrandi gengisfalli og hækkun höfuðstóls húsnæðislána, þar eð ríkisstjórnin hefur ekki hirt um að endurskoða fyrirkomulag verðtryggingar eða bankamálin að öðru leyti.Engin erlend samkeppni Verðtryggingin er samt ekki aðalvandi fjármálakerfisins. Aðalvandinn er, að Ísland er eitt fárra landa, þar sem innlendir bankar þurfa ekki að sæta erlendri samkeppni á heimamarkaði. Hvarvetna í útlöndum blasa við sjónum skilti til vitnis um starfsemi erlendra banka. Danskir bankar starfa í Færeyjum, norrænir bankar starfa í Þýzkalandi, bankar úr öllum heimshornum starfa í Bretlandi og Bandaríkjunum og þannig áfram land úr landi. Bankarekstur er í eðli sínu alþjóðlegur, þegar fjármagn streymir frjálst yfir landamæri líkt og vörur og þjónusta nema í neyðartilfellum (Ísland er eitt þeirra), þar sem hömlur eru lagðar á fjárflutninga. Innlend einokun í bankarekstri er óhagfellt fyrirkomulag og hefur ekki reynzt Íslendingum vel, að ekki sé meira sagt. Innlend einokun tíðkast enda nær hvergi nema á Íslandi. Norðmenn eru yfirleitt búnir að borga húsin sín að fullu fyrir fimmtugt. Íslendingar dragnast sumir jafnvel með námslánin sín fram á grafarbakkann. Skortur á erlendri samkeppni er óræk ávísun á óhagkvæmni í bankarekstri ekki síður en í landbúnaði. Við bætist skortur á innlendri samkeppni milli bankanna, sem Samkeppnisstofnun sektaði nýlega um 1,6 milljarða króna fyrir ólöglegt samráð. Vandinn sprettur af sérhagsmunum, sem líðst að kaffæra almannahag.Mjólkurkýr og kúgunartæki Bankarnir voru nær alla síðustu öld notaðir sem mjólkurkýr handa forgangsatvinnuvegum fyrir milligöngu stjórnmálaflokkanna. Gömlu ríkisbankarnir voru í reyndinni sjálfsafgreiðslustofnanir handa útvöldum. Þeir, sem reyndu að stunda nútímalegan atvinnurekstur í iðnaði, verzlun og þjónustu, neyddust til að stofna eigin banka. Þannig urðu Iðnaðarbankinn, Samvinnubankinn, Verzlunarbankinn o.fl. bankar til og áttu að keppa við gömlu ríkisbankana, en nýju bankarnir máttu sín lítils og sóttu smám saman í sama far og hinir. Þegar loksins varð ekki lengur undan því vikizt að einkavæða bankana, var það gert með því að setja tvo stærstu bankana í hendur innlendra manna í „talsambandi“ við ríkisstjórnarflokkana frekar en að nota tækifærið til að laða erlenda banka að landinu. Markmiðið var að veita stjórnmálaflokkunum og vinum þeirra áframhaldandi forgang í bankakerfinu eins og skrifaðar heimildir vitna skýrt um. Bankarnir voru síðan keyrðir í þrot – ekkert smáþrot! – á skömmum tíma. Alþingi heyktist á að skipa rannsóknarnefnd til að fjalla um málið.Kína eða Kanada? Enn bólar ekki á erlendri samkeppni í bankarekstri. Kínverskir bankar eru sagðir hafa augastað á Íslandsbanka. Það væri varasamur ráðahagur. Misjafnt orð fer af kínverskum bönkum, auk þess sem Kína er ásælið alræðisríki. Sumir þykjast nú sjá merki þess, að ríkisstjórnarflokkarnir hyggist þannig með hjálp Kínverja koma til móts við kröfuna um erlenda samkeppni til málamynda og skipta síðan Landsbankanum og Arion banka á milli sín með gamla laginu. Án heilbrigðrar erlendrar og innlendrar samkeppni jafngildir bankarekstur leyfi til að prenta peninga með því að rýja varnarlausa viðskiptavini inn að skinni. Nær væri að halda Kínverjum og einkavinum stjórnmálaflokkanna utan bankanna og laða heldur hingað heim t.d. norræna eða kanadíska banka. Bankakerfið í Kanada er að margra dómi bezta bankakerfi heims. Þar hlekktist engum banka á, ekki 2008 og jafnvel ekki heldur í Kreppunni miklu 1929-1939. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Frá hruni og raunar lengur hefur verðtrygging húsnæðislána og annarra neyzlulána sætt harðri gagnrýni, m.a. með þeim rökum, að hún sé ranglát. Ranglætið er, að lántakendur bera einir skaðann, þegar verðlag snarhækkar og kaupgjald stendur í stað eða jafnvel lækkar eins og gerðist 2008-2010. Þá þyngist greiðslubyrði lántakenda, en hagur lánveitenda af slíkum lánasamningum skerðist ekki. Lýðræðisvaktin lagði til lausn á vandanum fyrir kosningarnar 2013, en fáir sýndu henni áhuga. Vandi verðtryggingarinnar felst ekki í hugmyndinni, sem að baki býr: Takirðu lamb að láni, þá skilarðu lambi, ekki bara framparti. Vandinn liggur í framkvæmdinni, sem leggur áhættu á lántakandann einan og hlífir lánveitandanum og kann jafnvel með því móti að stangast á við neytendaverndarlög, svo sem tekizt er nú á um fyrir dómstólum. Tillaga Lýðræðisvaktarinnar fól í sér jafnari áhættuskiptingu skv. þeirri skoðun, að miklar skuldir eru ekki aðeins á ábyrgð lántakandans, heldur einnig lánveitandans (sjá xlvaktin.is). Ósanngjarnt er, að öll áhætta vegna verðbreytinga falli á annan aðila lánssamnings. Vandinn er ekki úr sögunni. Margt sýnist nú benda til, að kjarasamningar fari úr böndum á næstum mánuðum. Því veldur m.a. ógætileg og ögrandi framganga vinnuveitenda, sem hafa hækkað laun forstjóra langt umfram önnur laun, og einnig framganga ríkisstjórnarinnar (t.d. afnám hækkunar veiðigjalds) og seðlabankans (t.d. málaferli bankastjórans gegn bankanum vegna launadeilu). Af þessum atvikum leiðir umtalsverða hættu á verðbólgu með tilheyrandi gengisfalli og hækkun höfuðstóls húsnæðislána, þar eð ríkisstjórnin hefur ekki hirt um að endurskoða fyrirkomulag verðtryggingar eða bankamálin að öðru leyti.Engin erlend samkeppni Verðtryggingin er samt ekki aðalvandi fjármálakerfisins. Aðalvandinn er, að Ísland er eitt fárra landa, þar sem innlendir bankar þurfa ekki að sæta erlendri samkeppni á heimamarkaði. Hvarvetna í útlöndum blasa við sjónum skilti til vitnis um starfsemi erlendra banka. Danskir bankar starfa í Færeyjum, norrænir bankar starfa í Þýzkalandi, bankar úr öllum heimshornum starfa í Bretlandi og Bandaríkjunum og þannig áfram land úr landi. Bankarekstur er í eðli sínu alþjóðlegur, þegar fjármagn streymir frjálst yfir landamæri líkt og vörur og þjónusta nema í neyðartilfellum (Ísland er eitt þeirra), þar sem hömlur eru lagðar á fjárflutninga. Innlend einokun í bankarekstri er óhagfellt fyrirkomulag og hefur ekki reynzt Íslendingum vel, að ekki sé meira sagt. Innlend einokun tíðkast enda nær hvergi nema á Íslandi. Norðmenn eru yfirleitt búnir að borga húsin sín að fullu fyrir fimmtugt. Íslendingar dragnast sumir jafnvel með námslánin sín fram á grafarbakkann. Skortur á erlendri samkeppni er óræk ávísun á óhagkvæmni í bankarekstri ekki síður en í landbúnaði. Við bætist skortur á innlendri samkeppni milli bankanna, sem Samkeppnisstofnun sektaði nýlega um 1,6 milljarða króna fyrir ólöglegt samráð. Vandinn sprettur af sérhagsmunum, sem líðst að kaffæra almannahag.Mjólkurkýr og kúgunartæki Bankarnir voru nær alla síðustu öld notaðir sem mjólkurkýr handa forgangsatvinnuvegum fyrir milligöngu stjórnmálaflokkanna. Gömlu ríkisbankarnir voru í reyndinni sjálfsafgreiðslustofnanir handa útvöldum. Þeir, sem reyndu að stunda nútímalegan atvinnurekstur í iðnaði, verzlun og þjónustu, neyddust til að stofna eigin banka. Þannig urðu Iðnaðarbankinn, Samvinnubankinn, Verzlunarbankinn o.fl. bankar til og áttu að keppa við gömlu ríkisbankana, en nýju bankarnir máttu sín lítils og sóttu smám saman í sama far og hinir. Þegar loksins varð ekki lengur undan því vikizt að einkavæða bankana, var það gert með því að setja tvo stærstu bankana í hendur innlendra manna í „talsambandi“ við ríkisstjórnarflokkana frekar en að nota tækifærið til að laða erlenda banka að landinu. Markmiðið var að veita stjórnmálaflokkunum og vinum þeirra áframhaldandi forgang í bankakerfinu eins og skrifaðar heimildir vitna skýrt um. Bankarnir voru síðan keyrðir í þrot – ekkert smáþrot! – á skömmum tíma. Alþingi heyktist á að skipa rannsóknarnefnd til að fjalla um málið.Kína eða Kanada? Enn bólar ekki á erlendri samkeppni í bankarekstri. Kínverskir bankar eru sagðir hafa augastað á Íslandsbanka. Það væri varasamur ráðahagur. Misjafnt orð fer af kínverskum bönkum, auk þess sem Kína er ásælið alræðisríki. Sumir þykjast nú sjá merki þess, að ríkisstjórnarflokkarnir hyggist þannig með hjálp Kínverja koma til móts við kröfuna um erlenda samkeppni til málamynda og skipta síðan Landsbankanum og Arion banka á milli sín með gamla laginu. Án heilbrigðrar erlendrar og innlendrar samkeppni jafngildir bankarekstur leyfi til að prenta peninga með því að rýja varnarlausa viðskiptavini inn að skinni. Nær væri að halda Kínverjum og einkavinum stjórnmálaflokkanna utan bankanna og laða heldur hingað heim t.d. norræna eða kanadíska banka. Bankakerfið í Kanada er að margra dómi bezta bankakerfi heims. Þar hlekktist engum banka á, ekki 2008 og jafnvel ekki heldur í Kreppunni miklu 1929-1939.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun