Menning

Skemmtileg vegferð

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Þegar maður skemmtir sér félagslega þá smitar það út í tónlistina.“
„Þegar maður skemmtir sér félagslega þá smitar það út í tónlistina.“ Fréttablaðið/Ernir
„Við Tómas höfum unnið stíft saman frá áramótum,“ segir Ómar Guðjónsson gítarleikari, sem einmitt er í bröns hjá Tómasi R. Einarssyni kontrabassaleikara þegar hann svarar í símann. Þeir félagar ætla að troða upp í kvöld með nýtt og frumsamið efni í bland við eldri lög í Björtu loftum á 5. hæð í Hörpunni á tónleikum djassklúbbsins Múlans sem hefjast klukkan 21.



Ómar segir þá Tómas hafa unnið mikið saman síðustu tíu ár og átt sér þann draum að semja ofan í hvor annan. „Við vorum lengi að finna formið en síðasta sumar ákváðum við að taka verkefnið föstum tökum árið 2015 og byrja bara 1. janúar að vinna,“ segir Ómar og heldur áfram: „Þetta er gott ritúal. Ég kem tvisvar í viku til Tomma í tíukaffi, síðan förum við út í skúr og djömmum og síðan endar þetta í afgangaveislu í hádeginu.“

Þeir félagar ætla að leyfa gestum á tónleikum Múlans að heyra afrakstur undanfarinna vikna í kvöld, Ómar segir það fyrsta skrefið í átt að nýrri plötu. „Þegar maður skemmtir sér félagslega þá smitar það út í tónlistina,“ segir Ómar. „Þá verður vegferðin skemmtileg.“

Ómar tekur fram að þeir Tómas séu bara með hluta tónleikanna því Tríó Kjarr, sem í eru Birkir Freyr Matthíasson trompetleikari, Jakob Hagedorn Olsen gítarleikari og Guðjón Steinar Þorláksson bassaleikari, muni flytja fjölbreytta dagskrá eftir höfunda á borð við Monk, Hancock, Jarrett og Swallow ásamt frumsömdu efni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.