Veð Seðlabanka var aldrei gott Sigurjón M. Egilsson skrifar 18. febrúar 2015 07:00 Ekki er með nokkru móti hægt að halda því fram að Seðlabanki Íslands hafi fengið gott veð, góða tryggingu, þegar hann lánaði Kaupþingi meginhluta tiltæks gjaldeyrisvaraforða íslensku þjóðarinnar 6. október 2008. Þegar upp er staðið varð tap Seðlabankans stórkostlegt af lánveitingunni, eða 35 milljarðar króna. Í umræðu um þetta á Alþingi á mánudag sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um lánveitinguna: „Það var reyndar ekki gert nema að fengnum veðum, sem á þeim tíma þóttu nokkuð trygg.“ Þóttu þau það, voru veðin trygg? Nei, þau voru það ekki. Veðið var í banka í miðri bankakrísu. Slíkt getur aldrei talist gott veð. Annað er að veðið, eða tryggingin, fékkst ekki fyrr en nokkru eftir að lánið var greitt. Í skýrslu fjárlaganefndar Alþingis segir orðrétt: „Lánssamningurinn átti að fylgja í kjölfarið, en vegna þeirrar atburðarásar sem fór af stað eftir setningu neyðarlaganna var hann aldrei gerður. Lánveitingin og kjör lánsins voru hins vegar staðfest af skilanefnd og síðar slitastjórn Kaupþings og hafa kröfuhafar Kaupþings ekki mótmælt henni, enda hefur Seðlabankinn gengið að veðinu og selt það.“ Lánveitingin var um margt sérstök og krefst þess að öll spil verði lögð á borðið. Staða Bjarna Benediktssonar í þessu máli er flókin. Helstu gerendur málsins, af hálfu hins opinbera, það er lánveitandans, eru forverar hans á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins, þeir Davíð Oddsson og Geir H. Haarde. Þá staðreynd verður að hafa í huga. Það gerir Bjarna erfitt fyrir. Tap Seðlabankans af lánveitingunni varð umtalsvert. Eftir á að hyggja var ekki klókt að lána út á veð í banka eins og ástatt var á þeim tíma. Trúlegast töldu þeir sem tóku ákvörðunina um lánið að bjarga mætti Kaupþingi og að veðið í hinum danska banka FIH væri tryggt. Ekki er vitað hvort annað veð var tiltækt eða ekki. Hvort fleiri kostir hafi verið í stöðunni. Í skýrslu fjárlaganefndar Alþingis segir Seðlabankinn: „Lántöku Kaupþings þ. 6. október 2008 bar ákaflega brátt að og því vannst ekki tími til að kanna hver staða Seðlabankans væri varðandi fullnustu á veðinu, þ.e. að ganga að hlutafé bankans, enda var lánið veitt til að vinna bug á lausafjárerfiðleikum og það átti að endurgreiða 4 dögum síðar. Það má teljast ólíklegt að FIH-bankinn hefði veitt Seðlabankanum aðgang að lánasamningum sínum við framkvæmd vegna trúnaðar við lánveitendur sína.“ Af þessu má ljóst vera að meira að segja Seðlabanki Íslands taldi, hrundaginn sjálfan, að vandi Kaupþings væri einkum lausafjárvandi. „…enda var lánið veitt til að vinna bug á lausafjárerfiðleikum…“ Þetta er merkilegt í ljósi þess að eigið fé bankans var allt, allt annað og rýrara en var látið í veðri vaka. Þegar málið er skoðað nú, er ljóst að það er mörgum til vansa. Einkum þeim sem blekktu, þeim sem létu blekkjast og svo tapaði Seðlabankinn 35 milljörðum króna á öllu saman. Kannski endurheimtist eitthvað verði af hugsanlegri málssókn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sigurjón M. Egilsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun
Ekki er með nokkru móti hægt að halda því fram að Seðlabanki Íslands hafi fengið gott veð, góða tryggingu, þegar hann lánaði Kaupþingi meginhluta tiltæks gjaldeyrisvaraforða íslensku þjóðarinnar 6. október 2008. Þegar upp er staðið varð tap Seðlabankans stórkostlegt af lánveitingunni, eða 35 milljarðar króna. Í umræðu um þetta á Alþingi á mánudag sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um lánveitinguna: „Það var reyndar ekki gert nema að fengnum veðum, sem á þeim tíma þóttu nokkuð trygg.“ Þóttu þau það, voru veðin trygg? Nei, þau voru það ekki. Veðið var í banka í miðri bankakrísu. Slíkt getur aldrei talist gott veð. Annað er að veðið, eða tryggingin, fékkst ekki fyrr en nokkru eftir að lánið var greitt. Í skýrslu fjárlaganefndar Alþingis segir orðrétt: „Lánssamningurinn átti að fylgja í kjölfarið, en vegna þeirrar atburðarásar sem fór af stað eftir setningu neyðarlaganna var hann aldrei gerður. Lánveitingin og kjör lánsins voru hins vegar staðfest af skilanefnd og síðar slitastjórn Kaupþings og hafa kröfuhafar Kaupþings ekki mótmælt henni, enda hefur Seðlabankinn gengið að veðinu og selt það.“ Lánveitingin var um margt sérstök og krefst þess að öll spil verði lögð á borðið. Staða Bjarna Benediktssonar í þessu máli er flókin. Helstu gerendur málsins, af hálfu hins opinbera, það er lánveitandans, eru forverar hans á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins, þeir Davíð Oddsson og Geir H. Haarde. Þá staðreynd verður að hafa í huga. Það gerir Bjarna erfitt fyrir. Tap Seðlabankans af lánveitingunni varð umtalsvert. Eftir á að hyggja var ekki klókt að lána út á veð í banka eins og ástatt var á þeim tíma. Trúlegast töldu þeir sem tóku ákvörðunina um lánið að bjarga mætti Kaupþingi og að veðið í hinum danska banka FIH væri tryggt. Ekki er vitað hvort annað veð var tiltækt eða ekki. Hvort fleiri kostir hafi verið í stöðunni. Í skýrslu fjárlaganefndar Alþingis segir Seðlabankinn: „Lántöku Kaupþings þ. 6. október 2008 bar ákaflega brátt að og því vannst ekki tími til að kanna hver staða Seðlabankans væri varðandi fullnustu á veðinu, þ.e. að ganga að hlutafé bankans, enda var lánið veitt til að vinna bug á lausafjárerfiðleikum og það átti að endurgreiða 4 dögum síðar. Það má teljast ólíklegt að FIH-bankinn hefði veitt Seðlabankanum aðgang að lánasamningum sínum við framkvæmd vegna trúnaðar við lánveitendur sína.“ Af þessu má ljóst vera að meira að segja Seðlabanki Íslands taldi, hrundaginn sjálfan, að vandi Kaupþings væri einkum lausafjárvandi. „…enda var lánið veitt til að vinna bug á lausafjárerfiðleikum…“ Þetta er merkilegt í ljósi þess að eigið fé bankans var allt, allt annað og rýrara en var látið í veðri vaka. Þegar málið er skoðað nú, er ljóst að það er mörgum til vansa. Einkum þeim sem blekktu, þeim sem létu blekkjast og svo tapaði Seðlabankinn 35 milljörðum króna á öllu saman. Kannski endurheimtist eitthvað verði af hugsanlegri málssókn.