Menning

Bræða saman norsk og íslensk þjóðlög

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kórinn fær að spreyta sig á norskum þjóðlögum um leið og hann kynnir þau íslensku fyrir frændum okkar í Noregi.
Kórinn fær að spreyta sig á norskum þjóðlögum um leið og hann kynnir þau íslensku fyrir frændum okkar í Noregi.
„Yfirskrift tónleikanna verður „I flaggets farger“ því fánar Íslands og Noregs eru í sömu litum þótt samsetningin sé önnur,“ segir Eyþór Ingi Jónsson, stjórnandi kammerkórsins Hymnodiu, um væntanlegan söng kórsins í Noregi.

Þar mun hann troða upp á þrennum tónleikum með norsku tónlistarmönnunum Steinar Strøm harðangursfiðluleikara og Harald Skullerud slagverksleikara.

Eyþór segir verða um norsk-íslenskan þjóðlagabræðing að ræða.

„Ísland og Noregur eiga sér sameiginlegan menningararf sem birtist í tungumálinu og ýmsum þjóðareinkennum. Langur aðskilnaður gerði þó að verkum að þjóðlögin þróuðust í ólíkar áttir og áhugavert er að tefla þeim saman. Það er meginmarkmið samstarfs Hymnodiu og Norðmannanna tveggja,“ segir Eyþór Ingi.

Steinar og Harald komu til Akureyrar í haust og héldu tónleika með Hymnodiu þar og í Ólafsfirði. Hymnodia fékk meðal annars að spreyta sig á norskum þjóðlögum og þeir Steinar og Harald á íslenskum. Svo komu Norðmennirnir fram einir saman, Hymnodia ein og síðan allur hópurinn.

Svipaður háttur verður hafður á í Noregsferðinni þótt efnisskráin verði ekki nákvæmlega sú sama.

Hugmyndina að samstarfinu átti Akureyringurinn og tónskáldið Gísli Jóhann Grétarsson sem býr í Noregi og stýrir þjóðlagasetrinu í Buskerud.

Tónleikarnir úti verða í Gamle Akerkirke í Ósló 27. febrúar, í Eggedalkirke daginn eftir og Kongsbergkirke 1. mars.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×