Menning

Köllum þetta kóraveislu á góunni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Seltjarnarneskirkja er gott tónlistarhús og við vonum að einhverjir komi að gleðjast með okkur á góunni, segir Friðrik Vignir sem hér er ásamt Kammerkór Seltjarnarneskirkju.
Seltjarnarneskirkja er gott tónlistarhús og við vonum að einhverjir komi að gleðjast með okkur á góunni, segir Friðrik Vignir sem hér er ásamt Kammerkór Seltjarnarneskirkju.
„Við höldum samsöng okkur til skemmtunar og langar að leyfa öðrum að njóta. Köllum þetta kóraveislu á góunni,“ segir Friðrik Vignir Stefánsson, stjórnandi Kammerkórs Seltjarnarneskirkju, um tónleika fimm blandaðra kóra í kirkjunni í dag klukkan 17.

Kórarnir eru Kammerkór Seltjarnarneskirkju, Kór Neskirkju, Söngfjelagið, Dómkórinn og Söngsveitin Fílharmónía. „Við kórstjórarnir þekkjumst vel. Vorum eitthvað að krunka saman fyrir nokkrum mánuðum og þá kom hugmyndin upp um að halda sameiginlega tónleika og þetta verður hressilegt,“ lofar Friðrik Vignir.

Efnisskráin er fjölbreytt, verk frá barokktímanum til dagsins í dag, íslensk þjóðlög í bland við lög frá Eistlandi, Svíþjóð, Japan og Bandaríkjunum. Hver kór syngur nokkur lög og síðan allir saman í lokin.

„Við ákváðum að taka lög sem allir þekkja eins og Heyr himnasmiður, Á Sprengisandi og þjóðsönginn og svo syngjum við Halelújakórinn úr Messísai eftir Händel,“ segir Friðrik Vignir og tekur fram að miðinn kosti aðeins 1.000 krónur og kaffi verði á könnunni í hléinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×