Stjórnmálamenningin verður að breytast Jón Gnarr skrifar 28. febrúar 2015 07:00 Það var í fréttum í vikunni að tölvurisinn Apple hefði haft áhuga á að hitta forsætisráðherra eða forseta Íslands til að ræða möguleika á að opna gagnaver á Íslandi. Það var þó því skilyrði háð að annar hvor þeirra kæmi í heimsókn í aðalstöðvar Apple í Bandaríkjunum. Komið hefur í ljós að hvorki skrifstofa forseta né forsætisráðuneytið svaraði erindinu með formlegum hætti. Ekki liggur fyrir hversu mikilvægt þetta var, hvort Apple hefði haft raunverulegan áhuga á Íslandi eða var þetta bara pæling. Það skiptir ekki máli úr því sem komið er. Apple hefur tilkynnt að þetta gagnaver verði opnað í Danmörku. Apple er ekki eina risavaxna tölvufyrirtækið sem hefur haft áhuga á Íslandi. Fleiri hafa viljað opna starfsemi hér og sumir gengið svo langt að senda fulltrúa til að kanna aðstæður og ræða við yfirvöld. Síðasta sumar var hér sendinefnd á vegum Bitcoin sem rekur fjölda gagnavera víða um heim. Bitcoin hafði áhuga á að flytja lungann af starfsemi sinni til Íslands. Forsvarsmennirnir áttu meira að segja formlegan fund með fulltrúum Seðlabanka Íslands. Ekkert varð úr þessum áformum og skilst mér að Bitcoin hafi einfaldlega gefist upp og farið í hálfgerðu fússi. Við höfum mörg tækifæri í raforkusölu. Ísland hentar ágætlega að mörgu leyti fyrir gagnaver. Þau þurfa mikið rafmagn fyrir tölvubúnað en ekki síst fyrir kælikerfi. Við getum framleitt mikið af ódýru rafmagni. Rafmagnið okkar er líka vistvænt. Það er hugtak sem sífellt vex í verði. Við notum ekki jarðeldsneyti eða kjarnorku til að búa til rafmagn. Loftslag á Íslandi ætti líka að henta vel undir svona starfsemi. Loftslag er frekar milt allt árið, ekki of heitt á sumrin og sjaldan of kalt á veturna. Eflaust er hægt að hanna húsnæði sem gæti notað loftslagið til kælingar. Möguleikarnir virðast endalausir. Og því skyldi ekki vera hægt að opna hér risavaxin gagnaver eins og álver?Anti-þjónusta Ég hef töluverða reynslu af opinberum stofnunum á Íslandi enda verið Íslendingur í hálfa öld. Ég á margar hræðilegar minningar vegna samskipta okkar og skiptir þá engu hvort um er að ræða Bifreiðaeftirlit ríkisins, ÁTVR, Hagstofuna, Þjóðskrá Íslands eða sjálft Alþingi. Mér hafa ekki fundist þessar stofnanir sérstaklega opnar fyrir nýjungum eða breytingum. Þær hafa frekar verið mótfallnar slíku og rekið þjónustustefnu sem einkennist af einhvers konar anti-þjónustu. Sú ríkisstofnun sem ég hef átt í mestum samskiptum við er RÚV. Mér hefur alltaf fundist RÚV illa rekið apparat. Ég hef margoft komið þangað með alls konar hugmyndir og þeim hefur yfirleitt verið illa tekið. Þar skortir faglega móttöku hugmynda og úrvinnslu. Yfirleitt hefur maður þurft að ná tali af dagskrárstjóra því hann virðist einráður. Hann er ekki alltaf við og þegar hann er við þá hefur hann ekki alltaf tíma til að lesa einhver handrit. Dagskráin virðist fara eftir duttlungum og jafnvel fyrirgreiðslu á kostnað faglegra vinnubragða. RÚV hefur staðið fyrir flestu af því skammarlegasta sem gert hefur verið í sjónvarpi á Íslandi. En mér skilst að það sé eitthvað að breytast með nýjum stjórnendum. Í starfi mínu sem borgarstjóri þurfti ég að sækja fjölda ráðstefna á Norðurlöndunum. Þangað fer gjarnan borgarstjóri og svo pólitískur fulltrúi allra flokka sem eiga sæti í borgarstjórn. Með hópnum fara yfirleitt einn til tveir embættismenn. Ég tók fljótt eftir því að hjá hinum höfuðborgunum virtist þessu þveröfugt farið. Þær sendu yfirleitt her embættismanna og sérfræðinga og svo einn til tvo pólitíkusa. Höfuðborgarráðstefnur voru einu sinni vettvangur fyrir stjórnmálamenn til að hitta aðra stjórnmálamenn og ræða stjórnmál. Þær eru það ekki lengur. Umræður eru orðnar tæknilegri og sérhæfðari og varða loftslagsmál, sjálfbærni, lýðheilsu og samgöngumál. Ráðstefnurnar hafa misst sitt pólitíska vægi og eru frekar praktískar.Úrelt, stöðnuð og óskilvirk stjórnsýsla Íslensk stjórnsýsla er að mörgu leyti úrelt, stöðnuð og óskilvirk. Það er ekki alltaf við einstaka stjórnmála- eða embættismenn að sakast heldur frekar kerfið og jafnvel sjálfar leikreglurnar. Íslensk stjórnsýsla er ekkert sérstaklega opin eða móttækileg fyrir óvæntum og óvenjulegum hugmyndum. Skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum er meinsemd í íslenskum stjórnmálum. Stjórnkerfið er of pólitískt á kostnað fagmennsku. Við leggjum of mikla áherslu á einstaka leiðtoga og leiðtoga- og stjórnunarhæfileika einstaklinga. Það er úrelt og frumstæð aðferð. Nútímalegt stjórnkerfi byggir á samstarfi ólíkra fagaðila, sem hafa menntun og reynslu til að vinna verkefni vel og skila sem bestum árangri fyrir okkur íbúana. Það erum jú við sem borgum fyrir allt saman á endanum. Hlutverk stjórnmálamanna er fyrst og fremst stefnumótun og eftirlit með því að stefnunni sé fylgt. Hlutverk stjórnmálamanna er ekki að hafa óþarfa afskipti af daglegum rekstri. Við höfum alla möguleika á að breyta þessu. Við erum lítið land. Við þurfum skýrar og einfaldar reglur og stjórnkerfi sem er sveigjanlegt og nær að aðlagast hröðum breytingum. Stjórnmálamenningin verður að breytast og nútímavæðast. Afkoma okkar hefur alltaf byggst á sveigjanleika, útsjónarsemi og hversu fljót við erum að aðlagast nýjungum. Þannig þarf stjórnkerfið að verða. Ísland er land tækifæra. Ef við erum vakandi fyrir þeim. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Gnarr Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Það var í fréttum í vikunni að tölvurisinn Apple hefði haft áhuga á að hitta forsætisráðherra eða forseta Íslands til að ræða möguleika á að opna gagnaver á Íslandi. Það var þó því skilyrði háð að annar hvor þeirra kæmi í heimsókn í aðalstöðvar Apple í Bandaríkjunum. Komið hefur í ljós að hvorki skrifstofa forseta né forsætisráðuneytið svaraði erindinu með formlegum hætti. Ekki liggur fyrir hversu mikilvægt þetta var, hvort Apple hefði haft raunverulegan áhuga á Íslandi eða var þetta bara pæling. Það skiptir ekki máli úr því sem komið er. Apple hefur tilkynnt að þetta gagnaver verði opnað í Danmörku. Apple er ekki eina risavaxna tölvufyrirtækið sem hefur haft áhuga á Íslandi. Fleiri hafa viljað opna starfsemi hér og sumir gengið svo langt að senda fulltrúa til að kanna aðstæður og ræða við yfirvöld. Síðasta sumar var hér sendinefnd á vegum Bitcoin sem rekur fjölda gagnavera víða um heim. Bitcoin hafði áhuga á að flytja lungann af starfsemi sinni til Íslands. Forsvarsmennirnir áttu meira að segja formlegan fund með fulltrúum Seðlabanka Íslands. Ekkert varð úr þessum áformum og skilst mér að Bitcoin hafi einfaldlega gefist upp og farið í hálfgerðu fússi. Við höfum mörg tækifæri í raforkusölu. Ísland hentar ágætlega að mörgu leyti fyrir gagnaver. Þau þurfa mikið rafmagn fyrir tölvubúnað en ekki síst fyrir kælikerfi. Við getum framleitt mikið af ódýru rafmagni. Rafmagnið okkar er líka vistvænt. Það er hugtak sem sífellt vex í verði. Við notum ekki jarðeldsneyti eða kjarnorku til að búa til rafmagn. Loftslag á Íslandi ætti líka að henta vel undir svona starfsemi. Loftslag er frekar milt allt árið, ekki of heitt á sumrin og sjaldan of kalt á veturna. Eflaust er hægt að hanna húsnæði sem gæti notað loftslagið til kælingar. Möguleikarnir virðast endalausir. Og því skyldi ekki vera hægt að opna hér risavaxin gagnaver eins og álver?Anti-þjónusta Ég hef töluverða reynslu af opinberum stofnunum á Íslandi enda verið Íslendingur í hálfa öld. Ég á margar hræðilegar minningar vegna samskipta okkar og skiptir þá engu hvort um er að ræða Bifreiðaeftirlit ríkisins, ÁTVR, Hagstofuna, Þjóðskrá Íslands eða sjálft Alþingi. Mér hafa ekki fundist þessar stofnanir sérstaklega opnar fyrir nýjungum eða breytingum. Þær hafa frekar verið mótfallnar slíku og rekið þjónustustefnu sem einkennist af einhvers konar anti-þjónustu. Sú ríkisstofnun sem ég hef átt í mestum samskiptum við er RÚV. Mér hefur alltaf fundist RÚV illa rekið apparat. Ég hef margoft komið þangað með alls konar hugmyndir og þeim hefur yfirleitt verið illa tekið. Þar skortir faglega móttöku hugmynda og úrvinnslu. Yfirleitt hefur maður þurft að ná tali af dagskrárstjóra því hann virðist einráður. Hann er ekki alltaf við og þegar hann er við þá hefur hann ekki alltaf tíma til að lesa einhver handrit. Dagskráin virðist fara eftir duttlungum og jafnvel fyrirgreiðslu á kostnað faglegra vinnubragða. RÚV hefur staðið fyrir flestu af því skammarlegasta sem gert hefur verið í sjónvarpi á Íslandi. En mér skilst að það sé eitthvað að breytast með nýjum stjórnendum. Í starfi mínu sem borgarstjóri þurfti ég að sækja fjölda ráðstefna á Norðurlöndunum. Þangað fer gjarnan borgarstjóri og svo pólitískur fulltrúi allra flokka sem eiga sæti í borgarstjórn. Með hópnum fara yfirleitt einn til tveir embættismenn. Ég tók fljótt eftir því að hjá hinum höfuðborgunum virtist þessu þveröfugt farið. Þær sendu yfirleitt her embættismanna og sérfræðinga og svo einn til tvo pólitíkusa. Höfuðborgarráðstefnur voru einu sinni vettvangur fyrir stjórnmálamenn til að hitta aðra stjórnmálamenn og ræða stjórnmál. Þær eru það ekki lengur. Umræður eru orðnar tæknilegri og sérhæfðari og varða loftslagsmál, sjálfbærni, lýðheilsu og samgöngumál. Ráðstefnurnar hafa misst sitt pólitíska vægi og eru frekar praktískar.Úrelt, stöðnuð og óskilvirk stjórnsýsla Íslensk stjórnsýsla er að mörgu leyti úrelt, stöðnuð og óskilvirk. Það er ekki alltaf við einstaka stjórnmála- eða embættismenn að sakast heldur frekar kerfið og jafnvel sjálfar leikreglurnar. Íslensk stjórnsýsla er ekkert sérstaklega opin eða móttækileg fyrir óvæntum og óvenjulegum hugmyndum. Skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum er meinsemd í íslenskum stjórnmálum. Stjórnkerfið er of pólitískt á kostnað fagmennsku. Við leggjum of mikla áherslu á einstaka leiðtoga og leiðtoga- og stjórnunarhæfileika einstaklinga. Það er úrelt og frumstæð aðferð. Nútímalegt stjórnkerfi byggir á samstarfi ólíkra fagaðila, sem hafa menntun og reynslu til að vinna verkefni vel og skila sem bestum árangri fyrir okkur íbúana. Það erum jú við sem borgum fyrir allt saman á endanum. Hlutverk stjórnmálamanna er fyrst og fremst stefnumótun og eftirlit með því að stefnunni sé fylgt. Hlutverk stjórnmálamanna er ekki að hafa óþarfa afskipti af daglegum rekstri. Við höfum alla möguleika á að breyta þessu. Við erum lítið land. Við þurfum skýrar og einfaldar reglur og stjórnkerfi sem er sveigjanlegt og nær að aðlagast hröðum breytingum. Stjórnmálamenningin verður að breytast og nútímavæðast. Afkoma okkar hefur alltaf byggst á sveigjanleika, útsjónarsemi og hversu fljót við erum að aðlagast nýjungum. Þannig þarf stjórnkerfið að verða. Ísland er land tækifæra. Ef við erum vakandi fyrir þeim.