Erlent

Tugþúsundir minnast Boris Nemtsovs

Stjórnarandstæðingar saka Pútín um að bera ábyrgð á morðinu.
Stjórnarandstæðingar saka Pútín um að bera ábyrgð á morðinu.

Tugþúsundir manna komu saman í Moskvu, höfuðborg Rússlands, í gær til að minnast stjórnarandstæðingsins Boris Nemtsovs en hann var skotinn til bana síðastliðið föstudagskvöld. Skrúðganga var farin í gegnum miðborgina og að staðnum þar sem Nemtsov var myrtur. Margir héldu á blómum til að leggja á svæðið. Þá voru margir með rússneska fánann og nokkrir með þann úkraínska. Á vef Reuters greinir að fólk hafi gengið með skilti og á sumum hafi staðið „Rússland án Pútín“.



Mikil ólga hefur myndast í Rússlandi vegna morðsins. Nemtsov, sem varð 55 ára, var einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu en hann gegndi embætti aðstoðarforsætisráðherra landsins í valdatíð Boris Jeltsín Rússlandsforseta. Nemtsov var frjálslyndur stjórnmálamaður og hafði haldið uppi gagnrýni á stjórnvöld í Rússlandi, meðal annars vegna átakanna í Úkraínu. Hann var einn aðalskipuleggjenda mótmæla gegn hernaðarátökum í Úkraínu sem áttu að fara fram í borginni í gær.



Stjórnarandstæðingar í Rússlandi hafa komið saman í stórum hópum og sakað stjórn Pútíns um að bera ábyrgð á morðinu. Þá segja þeir Nemtsov hafa fengið morðhótanir undir nafnleysi dagana áður en hann var skotinn. Auk þess hafi hann sagt að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, vildi sig feigan.



Pútín hefur hins vegar fordæmt morðið og sagst ætla að taka að sér yfirstjórn rannsóknarinnar. Þessu hafa stjórnarandstæðingar mótmælt og sagt aðkomu hans að rannsókninni fráleita.



Nemtsov var skotinn fjórum sinnum í bakið af óþekktum árásarmanni í bíl þegar hann var á gangi yfir Boloshoy Kammeny-brúnna skammt frá Kreml með konu í miðborg Moskvu. Rússnesk stjórnvöld hafa nú gert opinbera upptöku sem náðist af morðsvæðinu. Myndbandið er þó ekki mjög greinilegt og aðeins aðdragandi morðsins sést á því, en ekki morðið sjálft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×