Menning

Flytja síðrómantísk verk eftir Sibelius og Strauss

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Tónleikarnir í kvöld heita Ljóðrænt litróf,“ segir Kristín Mjöll.
"Tónleikarnir í kvöld heita Ljóðrænt litróf,“ segir Kristín Mjöll. Fréttablaðið/Valli
„Sólrún kemur hingað frá Ítalíu og hún og Gerrit munu flytja efni eftir tvo síðrómantíska meistara, ljóðaflokk eftir Jean Sibelius og nokkur vel valin lög eftir Richard Strauss.“

Þetta segir Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari um tónleika í Norræna húsinu í kvöld klukkan 20 þar sem Sólrún Bragadóttir syngur og Gerrit Schuil leikur á píanó. Tónleikarnir tilheyra röðinni Klassík í Vatnsmýrinni sem stendur fram í nóvember og Kristín Mjöll er meðal skipuleggjenda.

Röðin er helguð konum að hluta vegna kosningaafmælisins. Hin sænska Gitt-María Sjöberg sópran kemur í september og tekur með sér píanistann Irene Hasager og í nóvember flytur Auður Gunnarsdóttir Mannsröddina eftir Poulenc á leikrænan hátt, ásamt Helgu Bryndísi píanóleikara.

Finnarnir Marko Ylönen sellóleikari og Martti Rautio píanóleikari koma fram í júní og Jón Sigurðsson spilar á píanó heila dagskrá eftir Scriabin í október.

Tuttugu ára og yngri fá frían aðgang að Klassík í Vatnsmýrinni að sögn Kristínar Mjallar.

„Við viljum hvetja ungt fólk til að mæta á tónleikana án þess að verðið sé þar fyrirstaða.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.