Menning

Górillustelpur og klifurdans

Magnús Guðmundsson skrifar
Danshópurinn BANDALOOP ætlar að leika listir sínar utan á Aðalstræti 6 á opnunarhátíð Listahátíðarinnar.
Danshópurinn BANDALOOP ætlar að leika listir sínar utan á Aðalstræti 6 á opnunarhátíð Listahátíðarinnar.
Opnunarhátíðin þann 13. maí mun endurspegla markmið aðstandendanna að góðu aðgengi almennings að listviðburðum. Þann dag verður afhjúpað nýtt verk eftir myndlistarhópinn Guerilla Girls sem samanstendur af sjö myndlistarkonum sem eru þekktar fyrir baráttu sína fyrir jafnrétti í listheiminum og hafa beitt fyrir sig húmor í fjölda spennandi verka á liðnum þrjátíu árum.

Guerilla Girls eru forsíðuefni Listahátíðar í ár enda samnefnari fyrir áhersluna á höfundarverk kvenna, ritskoðun og réttindabaráttu almennt.

Opnunaratriðið sjálft er hins vegar á ystu nöf samfélagsins í bókstaflegri merkingu. Þar er á ferðinni bandaríski dansflokkurinn BANDALOOP undir stjórn Ameliu Rudolph sem hefur leitt flokk sinn fram á ystu brún skýjakljúfa og klettabjarga víðsvegar um heim. BANDALOOP sérhæfir sig í lóðréttum dansi og er bakgrunnur listræns stjórnanda ekki einungis í dansi heldur einnig klettaklifri. 

Þessi heimsþekkti danshópur mun sýna þrjú verk á framhlið Aðalstrætis 6 við opnun Listahátíðarinnar og því um að gera fyrir Reykvíkinga sem og aðra unnendur klettaklifurs, danslistar og spennandi menningarviðburða í orðsins fyllstu merkingu að fjölmenna í Aðalstrætið þann 13. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×