Menning

Vilja vekja vorhug og gleði gestanna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hamrahlíðarkórinn er góður fulltrúi Íslands hvar sem hann kemur.
Hamrahlíðarkórinn er góður fulltrúi Íslands hvar sem hann kemur.
„Við viljum hressa fólk með góðri blöndu af vorvítamíni eftir langan og strangan vetur,“ segir Vigdís Hafliðadóttir hress um skemmtun Hamrahlíðarkóranna sem fagna sumri með söng í hátíðasal Menntaskólans í Hamrahlíð í dag, undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Fyrst klukkan 14 og aftur klukkan 16.



Efnisskráin á að vekja með öllum vorhug og gleði, að sögn Vigdísar. Hún segir þar blöndu gamalla gersema og nýrra, til dæmis sumar- og ættjarðarlög sem allir ættu að geta tekið undir.

Auk söngs og hljóðfæraleiks verður gestum boðið í dans við fjörugan leik salsabands og svo verður markaður í suðrænum stíl. Einnig verður bangsa- og dúkkuspítali, vísinda- og tilraunastofa, skátahorn og ljósmyndastofa.



Kór Menntaskólans við Hamrahlíð er nýkominn úr tónleikaferð um Suður- og Suðausturland og Hamrahlíðarkórinn, kór eldri nemenda, býr sig undir þátttöku í Europa Cantat, stærstu og viðamestu kórahátíð Evrópu í Ungverjalandi.



Á milli tónleikanna og á eftir verða seldar kaffiveitingar og ágóðinn rennur í ferðasjóð kóranna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×