Forsenda bættra lífskjara Þorbjörn Þórðarson skrifar 29. apríl 2015 08:00 Ekki eitt einasta fyrirtæki hefur flutt frá Íslandi beinlínis vegna gjaldeyrishafta frá því höftum var komið á með lagabreytingu hinn 28. nóvember 2008. Eftir að hafa grennslast fyrir um þetta í bæði fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabanka er niðurstaðan þessi. Promens telst ekki með í þessu sambandi því fyrirtækið var selt úr landi. Það flutti ekki beinlínis vegna haftanna þótt synjun á mjög víðtækum undanþágum frá gjaldeyrishöftum hafi skipt þar einhverju máli fyrir þáverandi hluthafa þess, Framtakssjóð Íslands og Landsbankann. Gjaldeyrishöftin áttu að vera tímbundin aðgerð en hafa nú verið lögbundin í tæp sjö ár. Það er forgangsmál hjá ríkisstjórninni að afnema höftin en enn er beðið eftir raunhæfum aðgerðum til að ná þessu markmiði þótt miklar vonir séu bundnar við boðaðan stöðugleikaskatt. Gjaldeyrishöftin voru hönnuð í samræmi við stofnsáttmála AGS og EES-samninginn og EFTA-dómstóllinn hefur þegar dæmt um að þau standist EES-samninginn vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem voru á Íslandi eftir banka- og gjaldeyrishrunið. Höftin voru og eru forsenda þess að lífskjör almennings voru varin eftir hrunið. Þau snerta líka lífsgæði almennings lítið eða ekki neitt enda eru vöru- og þjónustuviðskipti undanþegin höftum. Þannig slógu Íslendingar met í verslunarferðum til Boston í nóvember 2011 og tæplega 5.000 Íslendingar fóru til Boston síðustu þrjá mánuði þess árs til að rispa greiðslukortin sín í dollurum, eins og greint var frá í fréttum þess tíma, með tilheyrandi gjaldeyrisútflæði fyrir þjóðarbúið. Þannig finnur venjulegt fólk lítið eða ekkert fyrir höftunum. Greiðslukort virka erlendis og menn geta tekið út þann gjaldeyri sem þeir þurfa. Staðreyndin er sú að við getum ekki glöggvað okkur á raunverulegri skaðsemi haftanna nema hafa tölfræði. Það er með nokkrum ólíkindum að Seðlabanki Íslands hafi ekki birt opinberlega greiningu á kostnaði sem fylgir höftunum fyrir þjóðarbúið. Þeir sem vilja glöggva sig á tjóni þjóðarbúsins þurfa að reiða sig á útreikninga aðila eins og Viðskiptaráðs Íslands sem telur að gjaldeyrishöftin hafi kostað íslensk fyrirtæki 80 milljarða króna á árinu 2013 eingöngu í formi minni útflutningstekna. Tekið skal fram að sett hefur verið spurningarmerki við forsendur þessara útreikninga. Hvað sem líður afnámi hafta verða Íslendingar að horfast í augu við að fullkomlega frjálsir fjármagnsflutningar með krónu eru óraunhæfir og virka bara í útópískri veröld. Þess vegna verða tekin upp svokölluð þjóðhagsvarúðartæki eftir afnám haftanna. Þessi tæki munu alltaf fela í sér einhvers konar hömlur á frjálsu flæði fjármagns. Vandamál Íslendinga fyrir hrun var oftrú á frjálsu markaðshagkerfi samtímis sjálfstæðri peningastefnu á minnsta myntsvæði heimsins. Takmarkanir á innflæði fjár hefðu verið eðlilegar og nauðsynlegar eftir einkavæðingu bankanna. Það er einn af lærdómum hrunsins. Það er ekki hægt að reka sjálfstæða peningastefnu með krónu og leyfa samtímis fullkomið frelsi í fjármagnsflutningum. Takmarkanir á þessu frelsi eru nauðsynlegar til að verja lífskjör og stöðugleika. Þannig eru gjaldeyrishöftin forsenda óbreyttra lífskjara almennings en forsenda aukinnar verðmætasköpunar og hagvaxtar með tilheyrandi lífskjarabót er afnám haftanna. Það er samt full ástæða að staldra við og hafa hugfast að ekki eru efni til að gera jafn mikla grýlu úr gjaldeyrishöftunum og oft er látið í veðri vaka því þau eru nauðsynleg lyf við sjúkdómi sem hrjáir íslenska hagkerfið. Vonandi er þó varanleg lækning á næsta leiti. Höfundur er lögfræðingur og starfar sem fréttamaður. Pistillinn birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gjaldeyrishöft Þorbjörn Þórðarson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Biðin eftir leigubíl Elín Anna Gísladóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Ekki eitt einasta fyrirtæki hefur flutt frá Íslandi beinlínis vegna gjaldeyrishafta frá því höftum var komið á með lagabreytingu hinn 28. nóvember 2008. Eftir að hafa grennslast fyrir um þetta í bæði fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabanka er niðurstaðan þessi. Promens telst ekki með í þessu sambandi því fyrirtækið var selt úr landi. Það flutti ekki beinlínis vegna haftanna þótt synjun á mjög víðtækum undanþágum frá gjaldeyrishöftum hafi skipt þar einhverju máli fyrir þáverandi hluthafa þess, Framtakssjóð Íslands og Landsbankann. Gjaldeyrishöftin áttu að vera tímbundin aðgerð en hafa nú verið lögbundin í tæp sjö ár. Það er forgangsmál hjá ríkisstjórninni að afnema höftin en enn er beðið eftir raunhæfum aðgerðum til að ná þessu markmiði þótt miklar vonir séu bundnar við boðaðan stöðugleikaskatt. Gjaldeyrishöftin voru hönnuð í samræmi við stofnsáttmála AGS og EES-samninginn og EFTA-dómstóllinn hefur þegar dæmt um að þau standist EES-samninginn vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem voru á Íslandi eftir banka- og gjaldeyrishrunið. Höftin voru og eru forsenda þess að lífskjör almennings voru varin eftir hrunið. Þau snerta líka lífsgæði almennings lítið eða ekki neitt enda eru vöru- og þjónustuviðskipti undanþegin höftum. Þannig slógu Íslendingar met í verslunarferðum til Boston í nóvember 2011 og tæplega 5.000 Íslendingar fóru til Boston síðustu þrjá mánuði þess árs til að rispa greiðslukortin sín í dollurum, eins og greint var frá í fréttum þess tíma, með tilheyrandi gjaldeyrisútflæði fyrir þjóðarbúið. Þannig finnur venjulegt fólk lítið eða ekkert fyrir höftunum. Greiðslukort virka erlendis og menn geta tekið út þann gjaldeyri sem þeir þurfa. Staðreyndin er sú að við getum ekki glöggvað okkur á raunverulegri skaðsemi haftanna nema hafa tölfræði. Það er með nokkrum ólíkindum að Seðlabanki Íslands hafi ekki birt opinberlega greiningu á kostnaði sem fylgir höftunum fyrir þjóðarbúið. Þeir sem vilja glöggva sig á tjóni þjóðarbúsins þurfa að reiða sig á útreikninga aðila eins og Viðskiptaráðs Íslands sem telur að gjaldeyrishöftin hafi kostað íslensk fyrirtæki 80 milljarða króna á árinu 2013 eingöngu í formi minni útflutningstekna. Tekið skal fram að sett hefur verið spurningarmerki við forsendur þessara útreikninga. Hvað sem líður afnámi hafta verða Íslendingar að horfast í augu við að fullkomlega frjálsir fjármagnsflutningar með krónu eru óraunhæfir og virka bara í útópískri veröld. Þess vegna verða tekin upp svokölluð þjóðhagsvarúðartæki eftir afnám haftanna. Þessi tæki munu alltaf fela í sér einhvers konar hömlur á frjálsu flæði fjármagns. Vandamál Íslendinga fyrir hrun var oftrú á frjálsu markaðshagkerfi samtímis sjálfstæðri peningastefnu á minnsta myntsvæði heimsins. Takmarkanir á innflæði fjár hefðu verið eðlilegar og nauðsynlegar eftir einkavæðingu bankanna. Það er einn af lærdómum hrunsins. Það er ekki hægt að reka sjálfstæða peningastefnu með krónu og leyfa samtímis fullkomið frelsi í fjármagnsflutningum. Takmarkanir á þessu frelsi eru nauðsynlegar til að verja lífskjör og stöðugleika. Þannig eru gjaldeyrishöftin forsenda óbreyttra lífskjara almennings en forsenda aukinnar verðmætasköpunar og hagvaxtar með tilheyrandi lífskjarabót er afnám haftanna. Það er samt full ástæða að staldra við og hafa hugfast að ekki eru efni til að gera jafn mikla grýlu úr gjaldeyrishöftunum og oft er látið í veðri vaka því þau eru nauðsynleg lyf við sjúkdómi sem hrjáir íslenska hagkerfið. Vonandi er þó varanleg lækning á næsta leiti. Höfundur er lögfræðingur og starfar sem fréttamaður. Pistillinn birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun