Menning

Patró nafli heimsins

Magnús Guðmundsson skrifar
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri er einn af upphafsmönnum Skjaldborgarhátíðarinnar á Patreksfirði.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri er einn af upphafsmönnum Skjaldborgarhátíðarinnar á Patreksfirði. Visir/GVA
Skjaldborgarhátíðin verður haldin dagana 22.-25. maí í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði í 9. sinn. Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri, einn af upphafsmönnum hátíðarinnar, segir að það hafi verið magnað að fylgjast með Skjaldborgarhátíðinni vaxa fiskur um hrygg á þessum níu árum.

„Það vantaði í rauninni vettvang fyrir hátíð af þessu tagi og þá var það Hálfdán Pedersen sem datt niður á þetta frábæra hús sem Skjaldborgarbíó er. Þar eru reyndar bíósýningar vikulega sem er frábært en nú er þetta líka heimavöllur þessarar kvikmyndahátíðar. Fljótlega eftir að við byrjuðum að vinna að þessu gengu heimamenn í lið með okkur og það er alveg ljóst að þetta hefði aldrei gengið án þeirra.“

Skjaldborgarhátíðin er orðin mjög eftirsótt fyrir íslenska heimildarmyndagerð og segir Hafsteinn Gunnar að staðan sé nú orðin þannig að það sé því miður ekki hægt að koma öllum að. „Það er gríðarleg gróska í íslenskri heimildarmyndagerð. Við höfum frá upphafi farið þá leið að vera aðeins með íslenskar myndir og frá öðru ári hátíðarinnar hefur verið einn flottur erlendur gestur sem kemur og sýnir kannski tvær til þrjár af sínum myndum.

Kvennahátíð í ár

Í ár verða frumsýndar 16 glænýjar, íslenskar heimildarmyndir og sýnt úr 4 myndum á vinnslustigi. Heiðursgestirnir að þessu sinni koma frá Danmörku og eru meðal stofnenda og eigenda Danish Documentary sem er leiðandi á heimsvísu á sviði skapandi heimildarmynda. Fyrirtækið hefur framleitt yfir 20 heimildarmyndir sem eru margar hverjar margverðlaunaðar en leikstýran Eval Mulvad hefur t.a.m. unnið aðalverðlaun á Sundance, IDFA og Karlovy Vary, en heimildarmynd hennar The Good Life verður opnunarmynd hátíðarinnar í ár.“

Hafsteinn Gunnar bendir á að dagskráin sé sérlega fjölbreytt í ár og ánægjulegt hversu margar konur eiga myndir á hátíðinni.

„Þá eru konur og kvennabarátta áberandi og í því samhengi mætti nefna Jóhanna: Síðasta orrustan eftir Björn B. Björnsson. Halla Kristín Einarsdóttir frumsýnir Hvað er svona merkilegt við það? Framhald heimildarmyndarinnar Konur á rauðum sokkum sem hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar 2009. Einnig verða frumsýndar myndir eftir Þórunni Hafstað, Jóhann Jóhannsson, Kristján Loðmfjörð, Huldar Breiðfjörð, Helenu Stefánsdóttur, Þór Ómar Jónsson o.fl. Dagskránni verður svo lokað með heimildarmyndinni Finndið eftir Ragnar Hansson og uppistandi með Hugleiki Dagssyni, en Finndið segir frá ferð frændanna Hugleiks og Ara Eldjárn á uppistandshátíð í Turku í Finnlandi.“

Að vinna Einarinn

Skjaldborgarhátíðin er nokkuð sérstök á meðal kvikmyndahátíða fyrir þær sakir að einungis ein verðlaun eru veitt á hátíðinni og eru það áhorfendaverðlaun. „Það er til mikils að vinna Einarinn en svo kallast áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. Verðlaunin eru hönnuð af Einari Skarphéðinssyni, smíðakennara á Patreksfirði, sem er mikill listasmiður. Kvikmyndin Salóme hlaut þessi verðlaun á síðasta ári og frá Patreksfirði fór hún á Nordisk Panorama-hátíðina þar sem hún vann einnig til fyrstu verðlauna.“

Frjálst og opið form

Hafsteinn Gunnar segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á þessu formi kvikmyndanna. „Þetta form er í raun mun frjálsara og opnara en hin hefðbundna kvikmynd og maður verður fyrir ákaflega miklum áhrifum sem kvikmyndagerðarmaður af því að horfa á heimildarmyndir. Mike Leigh sagði eitt sinn eitthvað í þá veru að maður þyrfti að gæta þess að hafa smá af heimildarmynd í skálduðu myndinni og öfugt – ég held að það sé ansi mikið til í því.

Svo má geta þess að það er alltaf gríðarlega góð stemning og mikið gaman á Skjaldborgarhátíðinni, enda Patró nafli alheimsins í heimildarmyndagerð um hvítasunnuhátíðina. Auk kvikmyndanna þá er líka fullt af skemmtilegum viðburðum á borð við plokkarann, fiskiveisluna í Sjóræningjahúsinu og hið löðrandi hressa dansiball er á sínum stað. Þannig að nú er bara að skella sér vestur á Patró um hvítasunnuhelgina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×