Menning

Deildi reynslu sinni og þekkingu

Magnús Guðmundsson skrifar
Gísli var heiðursfélagi MHR.
Gísli var heiðursfélagi MHR.
Í dag klukkan 17 til 19 verður Gíslastofa formlega opnuð í húsnæði Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík að Nýlendugötu 15 til þess að heiðra minningu Gísla Kristjánssonar sem lést fyrr á þessu ári.

Gísli tengdist MHR og húsnæði þess að Nýlendugötu margslungnum böndum en hann fæddist í húsinu árið 1924 og foreldrar hans voru Ingibjörg Árnadóttir ljósmóðir og Kristján Gíslason eldsmiður.

Þar var heimili fjölskyldunnar og rak faðir hans eldsmiðju og vélsmiðju á neðstu hæð hússins. Gísli öðlaðist dýrmæta reynslu nálægt glóandi málminum og lærði síðar vélsmíði og bæði rafsuðu og logsuðu í Bandaríkjunum. Hann var útsjónarsamur frá fyrstu tíð og listræn hagleikssmíði hans leynist víða í borginni.

Þann 9. júlí árið 1993 afhenti Reykjavíkurborg MHR húsnæðið að Nýlendugötu 15. Gísla var í framhaldinu boðið að setja upp aðstöðu til járnsmíði á staðnum og reyndist það mikið gæfuspor fyrir félagið enda Gísli óþreytandi við að deila reynslu sinni og þekkingu með félagsmönnum, hjálplegur og ráðagóður.

Það er því mjög viðeigandi að Gíslastofu verður úthlutað til ungra félagsmanna í MHR til eins árs í senn með hagsmuni og vaxtarmöguleika unga fólksins að leiðarljósi.

Árið 2010 var Gísli Kristjánsson gerður að heiðursfélaga Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.