Vannýtt tækifæri Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar 18. júní 2015 10:07 Orð eru til alls fyrst, það er gamall sannleikur og nýr og kannski svo einfaldur í eðli sínu að oft og tíðum gleymum við honum. Það skiptir máli hvað við segjum, hvernig við segjum það og hvort við segjum það. Vissulega skipta gjörðir okkar meira máli en orð, það er að segja ef þetta tvennt stangast á, en það dregur ekki úr mikilvægi þess að tala saman. Og því að tala saman fylgir óhjákvæmilega það að hlusta. Ef aðstæður eru þannig að aðeins er talað en ekki hlustað er ekki um samtal að ræða. Þá er ekki verið að tala við einhvern, heldur yfir honum. Stjórnmálamenn gerðu rétt í því að muna þetta. Muna að við kjósendur erum bara fólk og flókin tjáskiptakerfi er eitt af því sem einkennir okkur mennina. Það má ganga of langt í þessa átt og halda á lofti endalausum samræðum, samræðustjórnmálum sem virðast fyrst og fremst ganga út á samræður og aftur samræður án þess að þær skili nokkru. Svona eins og lengsti húsfélagsfundur sögunnar. En stjórnmál eru orðsins list og orð öðlast ekki merkingu fyrr en í hlustum heyrenda eða augum lesenda. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hélt hátíðarræðu 17. júní, eins og forsætisráðherra er siður. Í ræðu hans kvað við kunnuglegan tón, Ísland, samstaða, þjóðin, náttúran, samstaða, þjóðin, landið, við erum svo einstök, já og náttúran líka. Detti einhverjum í hug sú fáránlega iðja að leggjast yfir þjóðhátíðarræður, segjum frá 1874 til dagsins í dag, mun koma í ljós að sami tónninn er sleginn í þeim flestum ef ekki öllum. Það er eins og ræðumenn setji orð sín í þjarkinn „þjóðhátíðarræða“ og út úr því kemur lof um land og þjóð og undirstrikun sérstöðu okkar. Sigmundur Davíð brá þó örlítið út af vananum í gær. Hann ræddi mikið um jafnréttismál og varð tíðrætt um gleðina. Við þyrftum að vera glöð. Verum nú glöð, krakkar. Nú ríður á að við séum glöð. Þar sem ég sat í sumarbústað í Þjórsárdal og hlýddi á ræðu forsætisráðherrans míns læddist sá grunur að mér að þessari klifun á gleðinni væri ekki síst beint til mótmælenda sem slógu taktinn undir ræðu ráðherra og hrópuðu um vanhæfa ríkisstjórn. Og kannski til þeirra sem hlustuðu á; áminning um að þó þarna væri einhver reiður skríll að skemma hátíðarstundina skipti nú mestu að við værum öll glöð. Þarna hafði Sigmundur Davíð einstakt tækifæri til að ávarpa mótmælendur, tala til þeirra, ekki yfir þeim, hlusta á hróp þeirra, ekki bara að finnast þau sandkorn í vel smurðri helgislepjumaskínu þjóðhátíðardagsins. Mótmælin áttu ekki að koma á óvart, til þeirra hafði verið boðað og um skrifað í fjölmiðlum fyrir þjóðhátíðardaginn. Sigmundur hefði því getað búið sig undir það sem kom og valið þá leið að ávarpa aðstæður en ekki hundsa þær. Ráðamenn eiga að ráða, en góðir ráðamenn ættu að hlusta á fólkið með þolinmæði og skilningi og ræða áhyggjur þess. Vandamálin hverfa ekki þó við hundsum þau. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kolbeinn Óttarsson Proppé Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun
Orð eru til alls fyrst, það er gamall sannleikur og nýr og kannski svo einfaldur í eðli sínu að oft og tíðum gleymum við honum. Það skiptir máli hvað við segjum, hvernig við segjum það og hvort við segjum það. Vissulega skipta gjörðir okkar meira máli en orð, það er að segja ef þetta tvennt stangast á, en það dregur ekki úr mikilvægi þess að tala saman. Og því að tala saman fylgir óhjákvæmilega það að hlusta. Ef aðstæður eru þannig að aðeins er talað en ekki hlustað er ekki um samtal að ræða. Þá er ekki verið að tala við einhvern, heldur yfir honum. Stjórnmálamenn gerðu rétt í því að muna þetta. Muna að við kjósendur erum bara fólk og flókin tjáskiptakerfi er eitt af því sem einkennir okkur mennina. Það má ganga of langt í þessa átt og halda á lofti endalausum samræðum, samræðustjórnmálum sem virðast fyrst og fremst ganga út á samræður og aftur samræður án þess að þær skili nokkru. Svona eins og lengsti húsfélagsfundur sögunnar. En stjórnmál eru orðsins list og orð öðlast ekki merkingu fyrr en í hlustum heyrenda eða augum lesenda. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hélt hátíðarræðu 17. júní, eins og forsætisráðherra er siður. Í ræðu hans kvað við kunnuglegan tón, Ísland, samstaða, þjóðin, náttúran, samstaða, þjóðin, landið, við erum svo einstök, já og náttúran líka. Detti einhverjum í hug sú fáránlega iðja að leggjast yfir þjóðhátíðarræður, segjum frá 1874 til dagsins í dag, mun koma í ljós að sami tónninn er sleginn í þeim flestum ef ekki öllum. Það er eins og ræðumenn setji orð sín í þjarkinn „þjóðhátíðarræða“ og út úr því kemur lof um land og þjóð og undirstrikun sérstöðu okkar. Sigmundur Davíð brá þó örlítið út af vananum í gær. Hann ræddi mikið um jafnréttismál og varð tíðrætt um gleðina. Við þyrftum að vera glöð. Verum nú glöð, krakkar. Nú ríður á að við séum glöð. Þar sem ég sat í sumarbústað í Þjórsárdal og hlýddi á ræðu forsætisráðherrans míns læddist sá grunur að mér að þessari klifun á gleðinni væri ekki síst beint til mótmælenda sem slógu taktinn undir ræðu ráðherra og hrópuðu um vanhæfa ríkisstjórn. Og kannski til þeirra sem hlustuðu á; áminning um að þó þarna væri einhver reiður skríll að skemma hátíðarstundina skipti nú mestu að við værum öll glöð. Þarna hafði Sigmundur Davíð einstakt tækifæri til að ávarpa mótmælendur, tala til þeirra, ekki yfir þeim, hlusta á hróp þeirra, ekki bara að finnast þau sandkorn í vel smurðri helgislepjumaskínu þjóðhátíðardagsins. Mótmælin áttu ekki að koma á óvart, til þeirra hafði verið boðað og um skrifað í fjölmiðlum fyrir þjóðhátíðardaginn. Sigmundur hefði því getað búið sig undir það sem kom og valið þá leið að ávarpa aðstæður en ekki hundsa þær. Ráðamenn eiga að ráða, en góðir ráðamenn ættu að hlusta á fólkið með þolinmæði og skilningi og ræða áhyggjur þess. Vandamálin hverfa ekki þó við hundsum þau.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun