Ljóst er að víðtæk samstaða ríkir meðal stjórnmálamanna um viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna aðgerða þeirra í Úkraínu. Utanríkismálanefnd ályktaði samhljóða nú í vikunni að þvingunum skyldi haldið áfram þrátt fyrir hótanir Rússa um að gjalda líku líkt með innflutningsbanni á íslenskar sjávarafurðir.
Ástandið í Úkraínu er flóknara en svo að skýra megi með einföldum hætti. Í grófum dráttum er staðreyndin þó sú að Rússar hafa gengið fram af hörku, og brotið gróflega gegn fullveldi nágranna sinna í Úkraínu. Innlimun Pútíns og kóna hans á Krímskaga eru fordæmalausar frá falli járntjaldsins og minna um margt á aðgerðir Þjóðverja á fjórða áratug síðustu aldar. Þá, líkt og nú, var réttlætingin sú að íbúar hinna innlimuðu svæða tilheyrðu í raun innrásaraflinu í menningarlegu tilliti. Vel kann að vera að sannleikskorn leynist í því. En siðuð ríki endurteikna ekki landamæri með hervaldi. Sporin hræða í þeim efnum.
Flest bendir til þess að afstaða utanríkisráðherra og utanríkismálanefndar í málinu sé vel ígrunduð. Ráðherrann var snöggur til að fordæma ódæði aðskilnaðarsinna síðasta sumar þegar þeir grönduðu farþegaflugvél yfir Úkraínu. Hann hefur heimsótt landið og gert tilraun til að kynna sér ástandið af eigin raun. Ísland á sögulega samleið með NATO og Evrópusambandinu, en hvað sem öðru líður er varla umdeilt að sambandið hefur verið afl í þágu friðar í álfunni. Ráðherrann virðist því byggja afstöðu sína bæði á eigin athugunum og með tilliti til sögunnar. Það er góð blanda.
Ekki má þó loka augunum fyrir því að ákvörðun sem þessi verður alltaf umdeild. Nauðsynlegt er að sýna útgerð og sjómönnum skilning. Það er súrt í broti að hafa lagt í fjárfestingar í fiskiflota, tækjum, viðskiptasamböndum og öðru til þess eins að láta kippa undan sér fótunum á augabragði. Það er umhugsunarefni, eins og utanríkisráðherra nefnir, hvort ekki er ástæða til að bæta skaðann með einhverjum hætti. Viðskiptabannið er almenn aðgerð sem bitnar í þessu tilfelli fyrst og fremst á útgerð, sjómönnum og fiskvinnslu, sem hafa fullan rétt á að kveinka sér.
Viðskiptahagsmunir eru einn hornsteinninn í utanríkisstefnu fullvalda ríkis. Þar er mikilvægt að horfa á allar hliðar máls. Fólk getur verið fylgjandi hugmyndinni um hvalveiðar, en mótfallið veiðunum sjálfum. Þar víki rétturinn til að veiða hval með tapi, sem þar að auki skaðar orðspor Íslands, fyrir ávinningi á alþjóðavettvangi við að segja skilið við veiðarnar. Þannig verði minni hagsmunum fórnað fyrir meiri.
Stundum er ekki hægt að setja hlutina upp í Excel-skjal. Íslandi er fyrir bestu að taka afstöðu með bandamönnum sínum gegn ágangi Rússa. Það er hagur smáríkja að alþjóðasamningar og reglur í samskiptum þjóða haldi. Það er tryggasta vörn gegn yfirgangi þess stóra. En á þeirri vegferð skal gæta þess að enginn lendi á köldum klaka að ósekju. Á því virðist skilningur hjá utanríkisráðherra.
Fastir pennar