Lífið

Nýja plata Agent Fresco fær frábærar viðtökur erlendis

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Hljómsveitin kom fram í gleðigöngunni um helgina og spilaði lög af nýju plötunni.
Hljómsveitin kom fram í gleðigöngunni um helgina og spilaði lög af nýju plötunni.
Það eru aðeins nokkrir dagar síðan nýjasta plata hljómsveitarinnar Agent Fresco, Destrier, kom út en hún hefur nú þegar fengið frábær viðbrögð.

Margir erlendir miðlar hafa dæmt plötuna og hafa flestallir dómarnir verið frábærir. Hljómsveitin stefnir á að fara á tónleikaferðalag um Evrópu í lok árs og er í viðræðum um að vera upphitunarband fyrir erlenda hljómsveit.

„Þetta er búið að vera klikkaðslega næs og viðbrögðin hafa verið fáránlega góð. Þetta er önnur platan okkar en sú fyrsta kom út 2010 svo það er orðið langt síðan síðast. Við vorum með útgáfupartí í seinustu viku sem heppnaðist mjög vel,“ segir Þórarinn Guðnason, gítarleikari sveitarinnar.

Útgáfupartí vegna plötunnar var haldið í Bíói Paradís fyrir helgi og var það vel heppnað. Það fór þannig fram að vinir og velunnarar sátu í sal eitt og hlustuðu á plötuna í gegn. „Við sýndum tónlistarmyndböndin þegar það átti við en annars vorum við með smá myndrænar skreytingar með lögunum. Þetta var svolítið öðruvísi og gaman að upplifa plötuna með öllum þar sem allir hlustuðu á hana en hún var ekki í bakgrunninum á einhverjum bar.“

Hljómsveitarmeðlimir hafa verið á fullu fyrir útgáfu plötunnar og því ákveðinn léttir að viðbrögðin hafi verið góð. „Það er allur fókusinn okkar búinn að vera á þessu. Við erum að ná okkur niður eftir síðustu daga, þetta er búið að vera alveg magnað. Ég er taka til í fyrsta skiptið í viku.“

Platan er komin í búðir og einnig er hægt að hlusta hana á tónlistarveitunni Spotify. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.