Menning

Undirstrika frjálslegt andrúmsloft og fallega upplifun

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þær Arnhildur og Sólrún ætla að flytja Ave Maríur á fyrri hluta tónleikanna og bland í poka eftir hlé.
Þær Arnhildur og Sólrún ætla að flytja Ave Maríur á fyrri hluta tónleikanna og bland í poka eftir hlé. Fréttablaðið/Ernir
Söngkonan Sólrún Bragadóttir verður fyrsti gestur Arnhildar Valgarðsdóttur, organista í Fella- og Hólakirkju, í nýrri tónleikaseríu sem hefst á fimmtudaginn, 7. janúar, og nefnist Frjáls eins og fuglinn.

„Sólrún er búsett á Ítalíu en er stödd á landinu til janúarloka og ég var svo heppin að fá hana til að hefja seríuna. Við flytjum eintómar Ave Maríur fyrir hlé, bæði þekktar og fágætar og eftir hlé velur Sólrún lög eftir stemningu salarins. Það verður spennandi,“ segir Arnhildur sem tók við organistastöðunni 1. september á síðasta ári og er upphafsmaður tónleikanna og skipuleggjandi.

„Nafnið á seríunni á að undirstrika frjálslegt andrúmsloft á tónleikunum og fallega upplifun bæði flytjenda og gesta,“ segir Arnhildur. Hún reiknar með mánaðarlegum tónleikum, venjulega fyrsta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. „Ég vona að fólk njóti þess að fljúga frjálst eins og fuglinn burt frá brauðstritinu og áhyggjunum og gleyma sér í tónlistinni um stund.“

Tónleikarnir á fimmtudaginn byrja klukkan 20. Aðgangseyrir er 2.500 krónur og 1.500 fyrir aldraða og öryrkja en ókeypis fyrir börn. Ekki verður posi á staðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×