Menning

Sérstök eftirvænting í loftinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Stór stund framundan hjá Ragnari sellóleikara, Jónasi Ásgeiri harmonikkuleikara, Heiðdísi Hönnu einsöngvara og Sigríði Hjördísi flautuleikara.
Stór stund framundan hjá Ragnari sellóleikara, Jónasi Ásgeiri harmonikkuleikara, Heiðdísi Hönnu einsöngvara og Sigríði Hjördísi flautuleikara.
Fjórir ungir, íslenskir einleikarar koma fram með sinfóníunni í kvöld í Eldborgarsal Hörpu. Þeir unnu árlega einleikarakeppni sem hljómsveitin og Listaháskólinn standa fyrir og þetta eru því fyrstu skref þeirra á stóru sviði með atvinnuhljómsveit. Þeir eru Heiðdís Hanna Sigurðardóttir einsöngvari, Sigríður Hjördís Indriðadóttir flautuleikari, Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmonikkuleikari og Ragnar Jónsson sellóleikari.

Keppnin er opin tónlistarnemendum á fyrsta háskólastigi, óháð því hvaða tónlistarskóla þeir sækja, og Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, segir tilganginn þann að styðja við efnilegustu tónlistarnemendurna og gefa á sama tíma áheyrendum tækifæri til að fylgjast með þeim.

„Stemningin á tónleikunum er jafnan einstök,“ segir hún og undir það tekur Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar.

„Það er óhætt að segja að það sé stór stund þegar vinningshafar keppninnar stíga á svið með hljómsveitinni og alltaf sérstök eftirvænting í loftinu að heyra í nýjum ungum einleikurum,“ segir hún.

Fluttir verða þrír einleikskonsertar á tónleikunum, forleikur og aríur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×