Heilsa

Besta útgáfan af sjálfri sér

,,Ég varð fljótt góð í CrossFit og þetta átti vel við mig. Ég bætti mig hratt og ég var ekki búin að stunda íþróttina í margar vikur þegar ég setti mér markmið um að komast á Evrópuleikana,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir, heimsmeistari í CrossFit.
,,Ég varð fljótt góð í CrossFit og þetta átti vel við mig. Ég bætti mig hratt og ég var ekki búin að stunda íþróttina í margar vikur þegar ég setti mér markmið um að komast á Evrópuleikana,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir, heimsmeistari í CrossFit. MYND/GVA
Undanfarnir mánuðir hafa varið annasamir í lífi Katrínar Tönju Davíðsdóttur, heimsmeistara í CrossFit. Fram undan er undirbúningur fyrir næstu Heimsleika sem haldnir verða í sumar og auðvitað er markmið hennar aðeins eitt; að standa aftur uppi sem sigurvegari.

Eftir stutt frí erlendis yfir jólahátíðina er alvaran tekin við á nýju ári hjá Katrínu Tönju. „Ég mun fljótlega halda til Bandaríkjanna þar sem ég mun dvelja við æfingar hjá þjálfara mínum. Fyrsta mót ársins verður svo í lok mánaðarins og þá sé ég betur hvar ég stend áður en tímabilið sjálft fer á flug.“

Næst á dagskrá er ferðalag til Bahamaeyja á vegum Reebok þar sem æfingahópurinn er hristur saman auk þess sem nýjar línur Reebok eru kynntar fyrir þeim. „Við fórum í sambærilega ferð í fyrra sem var hrikalega skemmtileg. Það er líka svo gott að fá smá sól inn í lífið fyrir veturinn sem fram undan.“

Í byrjun febrúar er förinni heitið til Kanada þar sem hún mun eyða tíma í æfingabúðum ásamt þjálfurum sínum og þremur öðrum íþróttamönnum. „Í lok febrúar verður undankeppnin fyrir Evrópu­leikana en þeir eru síðan undankeppni fyrir Heimsleikana sem haldnir verða í Kaliforníu í júlí. Öll markmið mín og æfingaprógrömm snúa að því að toppa í lok júlí þar sem ég vil mæta til leiks á Heimsleikana, vitandi að undirbúningurinn hefði ekki getað gengið betur. Á byrjunarlínunni vil ég vita það og trúa því að ég sé besta útgáfan af sjálfri mér sem íþróttamanni, bæði líkamlega og andlega.“

Kolféll fyrir íþróttinni

Katrín hefur nú stundað CrossFit í rúmlega fjögur ár. „Ég æfði fimleika í tíu ár en hætti sextán ára gömul og hóf þegar í stað að leita að nýrri íþrótt. Eftir að hafa prófað frjálsar íþróttir um tíma sá ég frétt sumarið 2011 um sigur Annie Mistar á heimsleikunum í CrossFit. Ég sá strax að þetta var eitthvað sem gæti höfðað til mín og kolféll fyrir þessu.“

Dæmigerður mánuður hjá Katrínu samanstendur af þremur stífum samfelldum æfingavikum. Í kjölfarið tekur við ein létt vika til að leyfa líkamanum að jafna sig.MYND/GVA
Fyrsta árið æfði Katrín BootCamp þrisvar í viku & CrossFit fjórum sinnum í viku en svo átti CrossFit hug hennar allan. „Ég varð fljótt góð í CrossFit og þetta átti vel við mig. Ég bætti mig hratt og ég var ekki búin að stunda íþróttina í margar vikur þegar ég setti mér markmið um að komast á Evrópuleikana ári síðar. Nokkrum mánuðum síðar breyttist markmiðið í að komast á Heimsleikana sem gekk eftir.“

Dæmigerður mánuður hjá Katrínu samanstendur af þremur stífum samfelldum æfingavikum og í kjölfarið tekur við ein létt vika til að leyfa líkamanum að jafna sig. „Í venjulegri viku eru fimm stífir æfingadagar. Þá tek ég morgunæfingu sem er yfirleitt styrktaræfing og svo einhvers konar tækni sem ég þarf að vinna í, t.d. kaðlar og dauðar handstöðuarmbeygjur. Seinni æfing dagsins er svo meira „conditioning“ æfing en þá tek ég nokkrar æfingar, bæði lengri til að æfa þolið og styttri fyrir snerpu. Þá tek ég bara eina létta æfingu á fimmtudögum og á sunnudögum hvíli ég alveg. Auk þess tek ég 1-2 hlaupaæfingar í viku og eina sundæfingu.“

Matur og slökun skipta máli

Mataræðið skiptir einnig mjög miklu máli að sögn Katrínar. „Ég er rosalega vanaföst þegar kemur að mat og borða það sem lætur mér líða vel. Í morgunmat borða ég fjögur egg, hálft avokadó, papriku, stórt vatnsglas og kaffi. Hádegismatinn borða ég eftir fyrstu æfingu en það er yfirleitt túnfisk- eða kjúklingasalat með dökkgrænu grænmeti. Eftir seinni æfinguna fæ ég mér ávöxt og próteinsjeik. Kvöldmaturinn samanstendur oft af fiski eða kjúklingi með sætum kartöflum og grænmeti.“

Svefn og slökun eru ekki síður mikilvægir þættir og hugar Katrín vel að þeim. „Það skiptir miklu máli upp á að líkaminn nái að jafna sig vel. Ég sef alltaf a.m.k. átta klukkutíma á hverri nóttu og slaka á milli og eftir æfingar með því að fara í heitan og kaldan pott auk þess að nota ýmis tæki til að losa mjólkursýru úr vöðvunum. Einnig má nefna að ég les mjög mikið af íþróttasálfræðibókum og ævisögum íþróttamanna. Þær halda hausnum á beinu brautinni og eru mjög hvetjandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.