Menning

Ástin og frelsisþráin leika lykilhlutverk

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Eivør segist alltaf rosa spennt að koma til Íslands. „Þetta verður stutt stopp núna en svo kem ég aftur í lok febrúar,“ segir hún.
Eivør segist alltaf rosa spennt að koma til Íslands. „Þetta verður stutt stopp núna en svo kem ég aftur í lok febrúar,“ segir hún. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við erum fimmtíu manns á ferðalagi með rosa flott prógramm í farteskinu,“ segir Eivør Pálsdóttir söngkona þegar í hana næst í síma. „Hópurinn er skemmtilegur, kór danska útvarpsins er klassískur óperukór og svo er stórsveit danska útvarpsins líka. Við byrjuðum tónleikahaldið í Færeyjum og verðum í Eldborgarsal Hörpu í kvöld klukkan 21, svo höldum við til Kaupmannahafnar,“ lýsir hún. 

Prógrammið sem Eivør talar um er dramatískt tónverk eftir hana sjálfa, Peter Jensen tónskáld og Marjun S. Kjelnæs rithöfund, það mun koma út á plötu innan skamms. Efnið er sótt í þjóðsöguna um konuna í selshamnum sem átti sjö börn á landi og sjö í sjó, sagan er vel þekkt bæði í Færeyjum og á Íslandi. Þar leika ástin og frelsis­þráin lykilhlutverk.

Málverk eftir Kristinu Joensen.
Eivør kveðst hafa flutt verkið „um kópakonuna í Mikladali“ fyrst í nóvember 2014 í Dómkirkjunni í Árósum og einnig í Kaupmannahöfn. „Þessi músík er sérstaklega skrifuð fyrir kirkjurými,“ segir hún en kveðst þess fullviss að þó hópurinn flytji verkið í Hörpu nái hann hinum rétta tóni.

„Verkið er ferðalag um hafsins djúp og líka land. Stórsveitin sér um raddir hafsins og kórinn er loft og land. Konan er föst í báðum þessum heimum, það gaf okkur innblástur.“

Þegar forvitnast er um klæðnað Eivarar á tónleikunum kveðst hún hafa leitað til saumakonu í Kaupmannahöfn, þar sem hún býr. „Ég lét sauma á mig kjól sem mér finnst passa við málverkin sem voru máluð sérstaklega fyrir þetta verkefni. Þau eru eftir færeysku listakonuna Kristinu Joensen sem oft hefur málað kópakonuna gegnum tíðina.“

Eivør segist alltaf vera rosa spennt fyrir að koma til Íslands. „Þetta verður stutt stopp núna en svo kem ég í lok febrúar og verð með mína eigin tónleika í Gamla bíói. Þá get ég stoppað aðeins lengur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×