Erlent

Hugsanlega áratugur í mótefni við Zika

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Zika-veiran breiðist út með moskítóflugum.
Zika-veiran breiðist út með moskítóflugum. Vísir/AFP
Bandarískir vísindamenn telja að það geti tekið allt að tíu ár að þróa og fá samþykkt mótefni við Zika-vírusnum svokallaða. Engin lækning er til við sjúkdómnum og erfitt er að greina hann.

Vísindamenn við læknadeild háskólans í Texas, sem hafa rannsakað veiruna, segja mögulegt að það takist að þróa mótefni á næstu tveimur árum. Hins vegar geti það tekið tæpan áratug að fá efnin samþykkt. Þeir segjast óttast það mjög að veiran nái frekari útbreiðslu.

Zika-veiran hefur herjað á íbúa Suður- og Mið-Ameríku að undanförnu og hefur nú greinst í tuttugu og einu landi, þar á meðal Danmörku, Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi.

Talið er að veiran geti valdið alvarlegum fósturskaða þannig að börn fæðast með of litla hauskúpu, svokallaðan smáheila. Um er að ræða sjaldgæfan heila- og taugasjúkdóm sem getur haft áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna.

Frá því í október hafa hátt í fjögur þúsund börn í Brasilíu greinst með þennan sjúkdóm.


Tengdar fréttir

Barnshafandi konur sérstakt áhyggjuefni

Ekki er hætta á zikaveirusjúkdómur verði landlægur á Íslandi en sóttvarnalæknir segir sjálfsagt að fólk sem hyggur á ferðalög á svæðinu sé á varðbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×