Lífið

Fjallið í viðtali við GQ: Borðar átta máltíðir á dag og vill verða sterkari

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hafþór í skemmtilegu viðtali.
Hafþór í skemmtilegu viðtali. vísir
Eins og flestir Íslendingar vita þá hefur kraftajötunninn Hafþór Júlíus Björnsson, eða Fjallið, slegið í gegn í vinsælustu sjónvarpsþáttum heims í dag, Game of Thrones.

Hann er í ítarlegu viðtali við tímaritið GQ og segir þar frá því að hann hafi alltaf verið stærri en  aðrir, alveg frá barnsaldri.

„Ég hef verið að æfa mikið alla mína ævi en fór ekki að bæta á mig vöðvum fyrr en ég hætti í körfuboltanum,“ segir Hafþór sem var landsliðsmaður í körfubolta á unglingsárunum.

„Ég fór yfir í lyftingar þar sem ég átti það til að meiðast mikið í körfunni. Eftir það var ég alveg ástfanginn af lóðunum og fór strax að þyngjast mjög mikið. Mér fannst gaman að sjá árangurinn.“

Hafþór segist hafa verið í kringum hundrað kíló þegar hann byrjaði að lyfta.

„Í dag er ég um hundrað og áttatíu kíló. Þetta snýst ekki allt um að æfa, þú verður að æfa vel, sofa vel og borða vel. Ef þú borðar ekki, þá stækkar þú ekkert. Í dag þarf ég að borða á tveggja tíma fresti. Ég borða svona sex til átta máltíðir á dag,“ segir Fjallið.

En verður Hafþór einhvertímann nægilega stór?

„Það skiptir mig engu máli að verða stærri, ég vil í raun ekkert stækka meira. Aftur á móti vil ég verða flottari og sterkari, ég stefni að því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.