Erlent

Tilfelli zika-veirunnar koma upp í Svíþjóð og Danmörku

Atli ísleifsson skrifar
Zika-veiran breiðist út með moskítóflugum.
Zika-veiran breiðist út með moskítóflugum. Vísir/AFP
Tilfelli Zika-veirunnar hafa nú í fyrsta sinn komið upp í Danmörku og Svíþjóð. Þeir smituðu eru nýkomnir heim eftir að hafa ferðast til til Mið- og Suður-Ameríku þar sem veiran hefur breiðst hratt út.

Veiran er talin valda fósturskaða en á síðasta ári fæddust tæplega þrjú þúsund börn með dverghöfuð sökum hennar. Þá er hún talin hafa dregið fjörutíu ungabörn til dauða á síðasta ári og er óttast að dauðsföllum muni fara fjölgandi. Engin sérstök meðferð eða mótefni hafa verið þróuð.

DR greinir frá að Daninn hafi verið lagður inn á háskólasjúkrahúsið í Árósum og að líðan hans sé góð. Um sé að ræða ungan karlmann og því sé ekki talið að smitið muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

SVT greinir frá að tilfelli hafi einnig komið upp í Svíþjóð, en að um vægt tilfelli sé að ræða.

Dverghöfuð, eða höfuðsmæð, veldur oft skertum vitsmunaþroska sem gerir einstaklingum erfitt að lifa eðlilegu lífi án aðstoðar.

Bandarísk yfirvöld hafa varað óléttar konur við að ferðast til Suður-Ameríku vegna útbreiðslu veirunnar. Þá hafa yfirvöld í Jamaíku, Ekvador, El Salvador og Kólumbíu ráðlagt konum að reyna ekki að verða óléttar að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Barnshafandi konur sérstakt áhyggjuefni

Ekki er hætta á zikaveirusjúkdómur verði landlægur á Íslandi en sóttvarnalæknir segir sjálfsagt að fólk sem hyggur á ferðalög á svæðinu sé á varðbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×