Erlent

Útbreiðsla Zika-veirunnar: 220 þúsund hermenn gerðir út af örkinni

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsmenn á vegum yfirvalda úða skordýraeitri til að fækka moskítóflugum á karnivalsvæðinu í Ríó de Janeiro.
Starfsmenn á vegum yfirvalda úða skordýraeitri til að fækka moskítóflugum á karnivalsvæðinu í Ríó de Janeiro. Vísir/AFP
Brasilísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda 220 þúsund hermenn út af örkinni til að bregðast við útbreiðslunni Zika-veirunnar.

Hermennirnir munu ganga hús úr húsi og afhenda íbúum bæklinga um hvernig megi forðast frekar útbreiðslu Zika.

Marcelo Castro, heilbrigðismálaráðherra Brasilíu, segir landið vera að tapa baráttunni gegn moskítóflugunni sem breiðir út veiruna. Um eina alvarlegastu ógn við lýðheilsu landsmanna væri að ræða.

Hermennirnir verða gerðir út af örkinni þann 13. febrúar.

Engin sérstök meðferð eða mótefni hafa verið þróuð.

Veiran er talin valda fósturskaða en á síðasta ári fæddust tæplega þrjú þúsund börn með dverghöfuð sökum hennar. Þá er hún talin hafa dregið fjörutíu ungabörn til dauða á síðasta ári og óttast er að dauðsföllum muni fara fjölgandi.

Dverghöfuð, eða höfuðsmæð, veldur oft skertum vitsmunaþroska sem gerir einstaklingum erfitt að lifa eðlilegu lífi án aðstoðar.

Bandarísk yfirvöld hafa varað óléttar konur við að ferðast til Suður-Ameríku vegna útbreiðslu veirunnar. Þá hafa yfirvöld í Jamaíku, Ekvador, El Salvador og Kólumbíu ráðlagt konum að reyna ekki að verða óléttar að svo stöddu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×