Erlent

Heita því að vernda keppendur og gesti í Río frá Zika-veirunni

Atli ísleifsson skrifar
Ólympíuleikarnir hefjast þann 5. ágúst og standa til 21. ágúst.
Ólympíuleikarnir hefjast þann 5. ágúst og standa til 21. ágúst. Vísir/AFP
Aðstendendur Ólympíuleikanna í Rio de Janeiro næsta sumar hafa heitið því að vernda keppendur og gesti leikanna frá hinni skæðu Zika-veiru, sem talin er hafa valdið alvarlegum fæðingargöllum í þúsundum barna í álfunni síðustu mánuði.

Áætlun um hvernig bregðast skuli við útbreiðslunni í tengslum við Ólympíuleikana var kynnt í gær, en útbreiðslan hefur valdið miklum áhyggjum meðal fólks í Mið- og Suður-Ameríku og víðar.

Veiran er lítið þekkt en berst með moskítóflugum. Leit að stöðum þar sem flugurnar fjölga sér verður reglulega gerð á keppnisstöðum og í Ólympíuþorpinu síðustu fjóra mánuði fyrir leikana leikana, auk þess að leit verður framkvæmd alla daga á meðan á leikunum stendur.

Veiran er talin valda fósturskaða en á síðasta ári fæddust tæplega þrjú þúsund börn með dverghöfuð sökum hennar. Þá er hún talin hafa dregið fjörutíu ungabörn til dauða á síðasta ári og óttast er að dauðsföllum muni fara fjölgandi. Dverghöfuð, eða höfuðsmæð, veldur oft skertum vitsmunaþroska sem gerir einstaklingum erfitt að lifa eðlilegu lífi án aðstoðar.

Bandarísk yfirvöld hafa varað óléttar konur við að ferðast til Suður-Ameríku vegna útbreiðslu veirunnar. Þá hafa yfirvöld í Jamaíku, Ekvador, El Salvador og Kólumbíu ráðlagt konum að reyna ekki að verða óléttar að svo stöddu.

Brasilísk heilbrigðisyfirvöld treysta jafnframt á það að eitthvað muni draga úr útbreiðslu veirunnar í sumar, þegar leikarnir fara fram, þar sem kaldara og þurrara verður í veðri sem þýðir að moskítóflugum fer fækkandi.

Leikarnir hefjast þann 5. ágúst og standa til 21. ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×