Erlent

Óttast fjölgun ólöglegra fóstureyðinga vegna Zika

Minnst 4000 börn hafa fæðst með heilaskaða vegna vírusins.
Minnst 4000 börn hafa fæðst með heilaskaða vegna vírusins. Vísir/EPA
Óttast er að dauðsföllum vegna ólöglegra fóstureyðinga Suður Ameríku eigi eftir að fjölga gríðarlega í kjölfar útbreiðslu Zika veirunnar og eru yfirvöld á svæðinu hvött til að endurskoða reglur um getnaðarvarnir og fóstureyðingar.

Yfirvöld í þó nokkrum löndum Suður Ameríku hafa þegar ráðlagt konum að bíða með barneignir á meðan útbreiðslu Zika veirunnar gætir en bent hefur verið á að það bann hrökkvi skammt á svæðum þar sem getnaðarvarnir eru illfáanlegar og þunganir sökum kynferðisofbeldis algengar.

Mjög strangar reglur eru gegn fóstureyðingum í Suður Ameríku og er talið að 95% þeirra fari fram við ólöglegar og ómannúðlegar aðstæður. Um 4,4 miljónir fóstureyðinga fara fram í heimsálfunni á ári hverju og þarf um milljón þeirra kvenna að leggjast inn á spítala í kjölfar aðgerðarinnar.

Kvenréttindasamtökin Anis í Brasilíu eru meðal þeirra sem kalla eftir breytingum í málaflokknum og fara fram á að stjórnvöld auki aðgengi að getnaðarvörnum til muna auk þess sem fóstureyðingar verði heimilaðar veikist hin verðandi móðir af Zika veirunni.

Engin bólusetning eða lækning er enn til við veirunni en vísindamenn eru bjartsýnir á að bóluefni verði mögulega tilbúið fyrir árslok. Almennt veldur zikaveirusýking aðeins vægum einkennum, svo sem hita og höfuðverk en afleiðingarnar eru öllu alvarlegri sýkist barnshafandi konur vegna hættu á að börn þeirra fæðist með heila- og taugasjúkdóm sem nefnist smáheili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×