Sport

Conor rífst við þungavigtarmeistarann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Írinn kjaftfori, Conor McGregor, er á góðri leið að fá alla bardagamenn í UFC, fyrir utan Gunnar Nelson, upp á móti sér. Nú síðast hjólaði hann í þungavigtarmeistarann, Fabricio Werdum.

Þeir byrjuðu að rífast í desember er Werdum hélt því fram að McGregor hefði viljað æfa hjá honum í Kings MMA liðinu. Conor þvertók fyrir það.

„Af hverju ætti ég að vilja æfa í sal með þessum aumingjum? Werdum þarf að vera með sínar staðreyndir á hreinu áður en ég mæti, kaupi staðinn og breyti honum í ruslaport,“ sagði Conor þá.

Werdum svaraði því til að hann hefði slegið Írann utan undir ef hann hefði sagt þetta upp í opið geðið á sér.

Sjá einnig: Gunnar farinn til Dublin að aðstoða Conor



Fabricio Werdum.vísir/getty
Um síðustu helgi var Conor valinn bardagamaður síðasta árs hjá UFC. Hann er að æfa með Gunnar í Dublin fyrir komandi bardaga og því var þakkarræða hans á myndbandi. Hann notaði ræðuna til þess að punda aftur á Werdum.

Werdum dró sig úr titilbardaga sínum á dögunum og það fannst Conor aumingjalegt.

„Ég þarf að mata ykkur alla aumingjana. Ég þarf að gefa ykkur öllum að borða því þið aumingjarnir nennið ekki að vinna. Við erum með þungavigtarmeistara sem er ræfill. Hætti við bardaga af því honum var illt í tánni. Hvaða meistari gerir það?“ sagði Conor grimmur í þessari afar sérstöku þakkarræðu. Hann fer ávallt sínar leiðir.

Werdum svaraði honum í dag og það á afar sérstakan hátt og með afar furðulegri mynd. Fólk almennt skilur ekki hvað Werdum er að fara en hann er klárlega að tapa þessu rifrildi.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×