Tónlist

Ást hinsegin fólks og menning og saga svartra í hávegum höfð í hálfleik Super Bowl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Eins og venjan er biðu áhorfendur spenntir eftir hálfleiknum í úrslitaleik NFL-deildarinnar, Super Bowl, sem fram fór í Santa Clara í Bandaríkjunum í nótt en jafnan er mikið lagt í tónlistaratriði hálfleiksins.

Tónlistarmennirnir Coldplay, Beyoncé og Bruno Mars komu fram í hálfleiknum þetta árið og var búið að hita ærlega upp fyrir herlegheitin þar sem Coldplay og Beyoncé gáfu út lag saman seint á síðasta ári, A Hymn for the Weekend, auk þess sem sú síðarnefnda gaf óvænt út nýtt lag og myndband á laugardaginn, eða degi fyrir Super Bowl-sýninguna.

Coldplay stigu fyrst á svið í öllum regnbogans litum sem flestum virtist vera eðlileg vísun í plötuumslag nýjustu plötu sveitarinnar, A Head Full of Dreams, en fljótlega kom í ljós að með litunum var sveitin að fagna ást hinsegin fólks.

Á einum tímapunkti fór söngvarinn Chris Martin til áhorfenda og sveiflaði einn þeirra regnbogafánanum, fána hinsegin fólks yfir höfði hans. Í lok atriðisins mynduðu héldu áhorfendur á leikvanginum síðan upp spjöldum sem mynduðu orðin "Believe in Love" (ísl. „Trúðu á ástina“) í regnbogalitunum.

Sýningin í hálfleik fagnaði þó ekki aðeins ást hinsegin fólks heldur var saga og menning svartra í Bandaríkjunum í forgrunni þegar Beyoncé tók nýjasta lag sitt "Formation." Texti lagsins er fullur af vísunum í svarta menningu og sögu en búningar Beyoncé og dansara hennar töluðu einnig sínu máli.

Jakki Beyoncé á Super Bowl í gær var ekki ósvipaður þessum sem Michael Jackson klæddist þegar hann kom fram á Super Bowl 1993.vísir/getty

Búningur söngkonunnar var þannig vísun í búning Michael Jackson þegar hann kom fram á Super Bowl árið 1993.

Dansararnir með Beyoncé voru síðan með svarta alpahúfu sem er vísun í Svörtu hlébarðana, aktívista sem börðust fyrir réttindum svartra í Bandaríkjunum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

Það má því segja að það hafi verið nóg af pólitík í hálfleik Super Bowl í gær en atriðið má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×