Menning

Vildi tengjast landinu

Magnús Guðmundsson skrifar
Ásgrímur Jónsson málaði mikið úti við á árunum eftir að hann kom heim frá námi.
Ásgrímur Jónsson málaði mikið úti við á árunum eftir að hann kom heim frá námi.
Undir berum himni er ný sýning í safni Ásgríms Jónssonar á málverkum Ásgríms sjálfs. Sýningin opnaði á safnanótt en sýningarstjóri er Rakel Pétursdóttir og hún segir að margir hafi beðið eftir því að verkin sem hér um ræðir komi til sýningar og hér sé því komið tilvalið tækifæri til þess að skoða þetta tímabil í verkum Ásgríms.

„Við erum að sýna verk, bæði olíu- og vatnslitamyndir, sem eru að stærstum hluta frá þeim tíma eftir að Ásgrímur kemur heim úr námi við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn árið 1909. Hann hraðaði sér heim frelsinu feginn til þess nýta áunna þekkingu og til að mála náttúru landsins. Áherslan er á suðurströndina og hann fer margar ferðir alveg austur í Skaftafellssýslur og málar mikið úti við.“

Aðspurð hvort að þetta tímabil hafi verið mótandi í list Ásgríms segir Rakel: „Við erum alla vega þakklát fyrir þetta tímabil í hans list. Að eiga þessar flottu vatnslitamyndir og málverk frá þessum tíma því þetta eru mjög glæsileg verk. Ásgrímur vann afskaplega vel úr sinni akademísku skólun og þó að skólinn þætti að mörgu leyti staðnaður á þessum tíma var Ásgrímur meðvitaður um það. Fór mikið á söfn og sýningar til þess að fylgjast með hvað væri að gerast og sér t.d. bæði Rambrandt og Van Gogh. En það má segja að þeirra áhrifa gæti seinna því þarna er hann fyrst og fremst að nýta þessa akademísku menntun.

Hann gerir þetta samt á eigin forsendum. Þeir sem eru að mála úti við mynda oft hópa eins og Skagen málararnir og þetta er oft mikil deigla en Ásgrímur var mikið einn á ferðinni. Hann var mikið að vinna með birtuna og það má sjá í endurminningum hans hversu óþreyjufullur hann var að koma heim og tengjast landinu á ný.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×