Sport

Forseti UFC: Ég veit ekki hvernig Conor ætlar að vinna Dos Anjos | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rafael dos Anjos, Dana White og Conor McGregor á blaðamannafundi.
Rafael dos Anjos, Dana White og Conor McGregor á blaðamannafundi. vísir/getty
Conor McGregor, heimsmeistari í fjaðurvigt í UFC, reynir þann 5. mars að verða fyrsti maðurinn í sögu UFC til að bera tvo heimsmeistaratitla.

Hann berst við Brasilíumanninn Rafael dos Anjos í Las Vegas á UFC 196-bardagakvöldinu um heimsmeistaratitilinn í léttvigt, en þessi 31 árs gamli Brassi er lang bestur í léttvigtinni þessa stundina.

„Ég veit ekki hvernig Conor á að vinna þennan bardaga. Hann er fjaðurvigtarmeistarinn en er að færa sig upp um þyngdarflokk og berjast við skrímsli,“ segir Dana White, forseti UFC.

Það að White hafi ekki tröllatrú á Conor kemur nokkuð á óvart en hingað til hefur forsetinn stutt írska vélbyssukjaftinn í öllu sem hann hefur gert.

Dos Anjos varð heimsmeistari í léttvigt í mars í fyrra þegar hann barði Anthony Pettis sundur og saman og vann á stigum. Hann varði svo titilinn gegn Donald „Cowboy“ Cerrone í desember með rothöggi í fyrstu lotu.

White hefur áhyggjur af Conor og telur að hann muni tapa sínum fyrsta bardaga í UFC laugardagskvöldið 5. mars því það er meira en að segja það að fara upp um þyngdarflokk í UFC.

„Anjos rústaði Cowboy Cerrone og Anthony Pettis. Þetta er ekki eins og í hnefaleikum þar sem þú ferð upp um 1 eða 1,3 kíló. Hann er að fara upp um tæp sjö kíló,“ segir Dana White.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×