Útlendingastofnun segir að ungur drengur frá Albaníu, sem vísað var úr landi í desember, fái nauðsynlega þjónustu heima fyrir. Hagsmunir barna ráði ávalt ríkjum. Umboðsmaður Alþingis sendi Útlendingastofnun fyrirspurn þann 14. desember. Henni var svo svarað þann 1. febrúar, en svar stofnunarinnar
var birt á heimasíðu hennar í gær.
Meðal þess sem umboðsmaður spurði um var yfirlit yfir umsóknir um dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna heilbrigðissjónarmiða aftur til ársins 2010. Þær upplýsingar verða ekki birtar opinberlega. Yfirlitið inniheldur um hundrað mál.
Segjast ávalt líta til aðstæðna Önnur spurning umboðsmanns sneri að því hvort að við rannsókn mála af þessum toga væri eingöngu litið til almennra upplýsinga um heilbrigðiskerfið í viðkomandi heimaríki eða ríki sem viðkomandi yrði vísað til. Eða hvort litið væri sérstaklega til atvika og aðstæðna viðkomandi.
Útlendingastofnun segir að bæði sé litið til almennra upplýsinga og persónubundinna aðstæðna þegar þörf á dvalarleyfi af mannúðarástæðum sé metið. Þá er tekið fram að viðtal við umsækjenda sé mikilvægasta gagn stofnunarinnar. Þar fái fólk tækifæri til að segja frá aðstæðum sínum og er þeim boðið að leggja fram gögn sem geta rennt stoðum undir frásögn þeirra, eins og læknisvottorð.
Þá var spurt um hvort og hvernig væri litið til þess hversu lengi umsækjendur hafi dvalist hér á landi á meðan mál þeirra er tekið fyrir. Einnig hve lengi viðkomandi hafi nýtt sér læknismeðferð eða aðra heilbrigðisþjónustu vegna þess vanda sem er ástæða umsóknar.
Hafi umsækjandi verið á Íslandi í minnst tvö ár vegna málsmeðferðar um hælisbeiðni, er Útlendingastofnun heimilt að veita viðkomandi dvalarleyfi. Þá segir að langvarandi læknismeðferð hér á landi hafi þýðingu við heildstætt mat á aðstæðum þegar metið er hvort mannúðarsjónarmið séu fyrir hendi.
Fær nauðsynlega þjónustu í Albaníu Umboðsmaður vildi vita hvort læknar eða aðrir meðferðaraðilar væru fengnir til umsagnar vegna heilsufarsvanda. Útlendingastofnun segir svo vera, þegar hugsanlegt sé að veikindin gætu haft áhrif á meðferð eða úrslit máls. Ávallt sé litið til fyrirliggjandi vottorða og mats lækna þegar heilbrigðisástand umsækjenda sé metið.
Sérstaklega er vikið að máli ungs drengs frá Albaníu sem var vísað úr landi í desember. Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu að hann myndi fá þá læknisþjónustu sem hann þyrfti, í Albaníu.
Að lokum er spurt hvort og að hvaða marki sé litið til þess þegar börn eru hluti af umsókn. Sérstaklega með tilliti til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Útlendingastofnun segir að miðað sé við að minna þurfi til að koma svo að barni sé veitt mannúðarleyfi. Hvort sem það sé af heilbrigðisástæðum eða á öðrum grundvelli. Einnig spili inn í hvort það sé einhver vafi á því hvort að barn muni hljóta þá heilbrigðisþjónustu sem það þarf á að halda í sínu heimalandi. Hagur og hagsmuni barns séu látnir ráða ríkjum.