Popúlismi Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 25. febrúar 2016 07:00 Íþróttakennaraskólinn verður fluttur frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Háskólaráð ákvað þetta í síðustu viku. Rökin voru þau að aðsókn hefur farið dvínandi og verið óviðunandi í nokkurn tíma. Þar réð staðsetningin mestu. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, steig fram um helgina og sagði nemendur í íþróttakennaranámi þurfa að vera þrefalt fleiri til að fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir náminu með þeim hætti sem það er í dag. Fjörutíu nemendur leggja nú stund á námið en áður var það fjöldi nemenda í hverjum árgangi. Í grein á Vísi sagði Jón Atli að háskólanum væri sniðinn þröngur stakkur fjárhagslega vegna langvarandi undirfjármögnunar. Þessi ákvörðun væri tekin með það að leiðarljósi að efla íþrótta- og heilsufræðinám. Ákveðnir ráðherrar stukku upp til handa og fóta þegar ákvörðunin var tilkynnt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði ákvörðunina væntanlega kalla á að fjárveitingum yrði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra spurði hver myndi þora að fara í samstarf við Háskóla Íslands úti á landi „ef allt á að enda í Vatnsmýrinni?“ Það er kaldhæðnislegt að þeir sem gagnrýna ákvörðunina mest eru þeir sem fara með fjárveitingavaldið og hafa mest um það að segja hversu mikla peninga háskólasamfélagið fær. Sé vilji til þess að ausa peningum í nám á landsbyggðinni er stjórnvöldum það í lófa lagið. Hins vegar er staðreyndin sú að fjármögnun háskólakerfisins á Íslandi hefur verið döpur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, allt frá hruni. Málið snýst hins vegar ekki bara um það. Það snýst um þá nemendur sem ekki eiga þess kost að sækja umrætt nám vegna staðsetningar þess. Og þá kennara sem verða af því að kenna þessum nemendum. Það snýst um gæði menntunarinnar sem ómögulegt er að tryggja með svo fáum nemendum. Það snýst um yfirlegu þeirra sem skoðuðu málið, vógu það og mátu og skoðuðu alla kosti áður en rétt ákvörðun var tekin. Í ákvörðun háskólaráðs kom meira að segja fram að stefnt er að því að starfsemi á Laugarvatni verði haldið áfram eftir því sem talið verður ákjósanlegast í þágu háskólans og verður hún mótuð í samstarfi og samkomulagi við stjórnvöld, sveitarstjórnina, Háskólafélag Suðurlands og eftir atvikum alla þá sem kynnu að hafa áhuga á starfsemi háskólans á svæðinu. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun. Hún ræður málefnum sínum sjálf, að því undanskildu að stjórnvöld veita henni fé. Þegar forsætisráðherra ýjar að því að háskólasamfélagið á höfuðborgarsvæðinu fái að kenna á því er vegið að þessu sjálfstæði og er það alvarlegt. Kjördæmapopúlismi líkt og sá sem landbúnaðarráðherra sýnir af sér er ekki síður alvarlegur. Slíkir tilburðir gegn lýðræðinu og sjálfstæðum stofnunum eru ekki sannfærandi fyrir æðstu stjórnendur þessa lands. Menntamálaráðherra ákvað að skilja orð forsætisráðherra með þeim hætti að tryggja þurfi nægt fjármagn fyrir háskólastarfsemi, hvort sem er úti á landi eða í Reykjavík. Það er langsóttur skilningur á orðum ráðherra – en vonandi samt sem áður hinn rétti. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Íþróttakennaraskólinn verður fluttur frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Háskólaráð ákvað þetta í síðustu viku. Rökin voru þau að aðsókn hefur farið dvínandi og verið óviðunandi í nokkurn tíma. Þar réð staðsetningin mestu. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, steig fram um helgina og sagði nemendur í íþróttakennaranámi þurfa að vera þrefalt fleiri til að fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir náminu með þeim hætti sem það er í dag. Fjörutíu nemendur leggja nú stund á námið en áður var það fjöldi nemenda í hverjum árgangi. Í grein á Vísi sagði Jón Atli að háskólanum væri sniðinn þröngur stakkur fjárhagslega vegna langvarandi undirfjármögnunar. Þessi ákvörðun væri tekin með það að leiðarljósi að efla íþrótta- og heilsufræðinám. Ákveðnir ráðherrar stukku upp til handa og fóta þegar ákvörðunin var tilkynnt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði ákvörðunina væntanlega kalla á að fjárveitingum yrði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra spurði hver myndi þora að fara í samstarf við Háskóla Íslands úti á landi „ef allt á að enda í Vatnsmýrinni?“ Það er kaldhæðnislegt að þeir sem gagnrýna ákvörðunina mest eru þeir sem fara með fjárveitingavaldið og hafa mest um það að segja hversu mikla peninga háskólasamfélagið fær. Sé vilji til þess að ausa peningum í nám á landsbyggðinni er stjórnvöldum það í lófa lagið. Hins vegar er staðreyndin sú að fjármögnun háskólakerfisins á Íslandi hefur verið döpur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, allt frá hruni. Málið snýst hins vegar ekki bara um það. Það snýst um þá nemendur sem ekki eiga þess kost að sækja umrætt nám vegna staðsetningar þess. Og þá kennara sem verða af því að kenna þessum nemendum. Það snýst um gæði menntunarinnar sem ómögulegt er að tryggja með svo fáum nemendum. Það snýst um yfirlegu þeirra sem skoðuðu málið, vógu það og mátu og skoðuðu alla kosti áður en rétt ákvörðun var tekin. Í ákvörðun háskólaráðs kom meira að segja fram að stefnt er að því að starfsemi á Laugarvatni verði haldið áfram eftir því sem talið verður ákjósanlegast í þágu háskólans og verður hún mótuð í samstarfi og samkomulagi við stjórnvöld, sveitarstjórnina, Háskólafélag Suðurlands og eftir atvikum alla þá sem kynnu að hafa áhuga á starfsemi háskólans á svæðinu. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun. Hún ræður málefnum sínum sjálf, að því undanskildu að stjórnvöld veita henni fé. Þegar forsætisráðherra ýjar að því að háskólasamfélagið á höfuðborgarsvæðinu fái að kenna á því er vegið að þessu sjálfstæði og er það alvarlegt. Kjördæmapopúlismi líkt og sá sem landbúnaðarráðherra sýnir af sér er ekki síður alvarlegur. Slíkir tilburðir gegn lýðræðinu og sjálfstæðum stofnunum eru ekki sannfærandi fyrir æðstu stjórnendur þessa lands. Menntamálaráðherra ákvað að skilja orð forsætisráðherra með þeim hætti að tryggja þurfi nægt fjármagn fyrir háskólastarfsemi, hvort sem er úti á landi eða í Reykjavík. Það er langsóttur skilningur á orðum ráðherra – en vonandi samt sem áður hinn rétti.