Að því er kemur fram í frétt tímaritsins Fortune, munu sex tölvuleikir fylgja með hverju eintaki af Gear VR-gleraugunum. Ólíkir leikir fylgja með hjá ólíkum símafyrirtækjum en Gunjack verður í boði ásamt öðrum vinsælum leikjum á borð við Land‘s End og Anshar Wars 2. Tilboðið stendur yfir í takmarkaðan tíma.
Gunjack er skotleikur sem gerist í sama „heimi“ og EVE Online tölvuleikurinn, vinsælasti leikur CCP. Samsung snjallsíma er komið fyrir í Gear VR-gleraugunum sem notandinn ber á hausnum ásamt heyrnartólum. Með hverri hreyfingu spilarans birtist ný mynd á skjánum svo það er eins og spilarinn sé raunverulega staddur á fjarlægri plánetu að berjast við vélmenni.