Sport

Conor seldi sál sína

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þó svo margir í UFC græði heilmikið á Conor McGregor þá er ansi mörgum þar illa við ruslakjaftinn frá Írlandi.

Einn þeirra er þungavigtarmeistarinn frá Brasilíu, Fabricio Werdum. Hann var einn þeirra sem gladdist mikið er McGregor tapaði gegn Nate Diaz.

„Conor byrjaði mjög vel á því að markaðssetja sig. Hann talar mikið og er frábær bardagamaður. Það er ekki hægt að neita því en ég held að hann hafi gengið of langt. Þetta er orðið of mikið,“ segir Werdum sem hefur fengið sínar sneiðar frá McGregor eins og margir.

„Hann segist geta barist við hvern sem er í öllum þyngdarflokkum. Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig í þessum bransa. Bardagamenn virða hvorn annan en hann virðir ekki neinn. Ég sætti mig ekki við að sitja undir einhverju rugli frá honum,“ segir Werdum en hann hefur gengið svo langt að kalla Írann hóru.

„Bardagamönnum er illa við Conor. Það finnst öllum gaman að horfa á hann berjast því hann kann að auglýsa bardagana sína. Ég breyti mér samt ekki út af peningum. Það líkar öllum við peninga en það eru takmörk fyrir öllu. Hann seldi sál sína og það er ekki gott. Það var kominn tími á að einhver þaggaði niður í honum.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×