Erlent

Flugvöllurinn í Brussel ekki jafn mikið skemmdur og talið var

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugvöllurinn hefur verið lokaður frá því að árásirnar voru gerðar.
Flugvöllurinn hefur verið lokaður frá því að árásirnar voru gerðar. Vísir/Getty
Forráðamenn Zaventem-flugvallarins í Brussel segja að flugvöllurinn verði ekki opnaður á ný fyrr en á þriðjudag. Rannsóknir á byggingu flugvallarins þar sem sprengjurnar voru sprengdar í hryðjuverkaárásunum í síðustu viku hafa leitt í ljós að byggingin er ekki jafn mikið skemmd og í fyrstu var talið.

Verkfræðingar hafa rannsakað brottfararsalinn eftir að rannsókn lögregluyfirvalda á vettvangi var lokið. Í ljós er komið að byggingin er nokkuð heilleg eftir sprengingarnar, þrátt fyrir augljósar skemmdir. Gæti flugvöllurinn opnað á ný á þriðjudaginn í næstu viku.

Verið er að athuga hvort hægt sé að útbúa tímabundna aðstöðu til þess að taka á móti farþegum en flugvöllurinn hefur verið lokaður frá því að hryðjuverkamenn létu til skarar skríða og sprengdu tvær sprengjur í brottfararsal flugvallarins. 

Reiknað er með að hertar öryggisráðstafnir verði teknar í gagnið þegar flugvöllurinn opnar á nýjan leik en ekki hefur verið gefið út í hverju það muni felast.

Flugfélög sem fljúga til Brussel hafa í mörgum tilvikjum fært flug sín á nærliggjandi flugvelli í nágrannalöndum Belgíu auk þess sem að mikið álag er á Charleroi-flugvellinum sem er í um klukkustundar fjarlægð frá Brussel.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×