Menning

Við lofum að ljúga ekki að áhorfendum

Magnús Guðmundsson skrifar
Kapparnir í Of Miles and Men eru klárir í skemmtilegheitin í Hörpu í kvöld.
Kapparnir í Of Miles and Men eru klárir í skemmtilegheitin í Hörpu í kvöld.
Á tónleikum Múlans í Björtuloftum í Hörpu í kvöld kemur fram hljómsveitin Of Miles and Men. Hljómsveitin mun leika nokkur af uppáhaldslögum sínum af löngum og glæstum ferli trompetleikarans Miles Davis. Trompet- og flügelhornleikararnir Ari Bragi Kárason og Snorri Sigurðarson fara fyrir fríðum flokki en ásamt þeim skipa hljómsveitina Kjartan Valdemarsson á Fender ­Rhodes, Róbert Þórhallsson á holbola-lággígju og Einar Scheving á trommur.

„Ég veit ekki hvort það er til nokkur djassleikari sem er undanskilinn því að vera Miles Davis aðdáandi,“ segir Einar Scheving og bætir við að hann hafi að minnsta kosti ekki hitt hann enn sem komið er og eigi ekki von á því að það gerist.

„Ég fékk bara þessa hugmynd að hóa þessum mannskap saman og katalógurinn sem liggur eftir Miles Davis er svo gríðarlegur að það var aldrei neitt markmið annað en að hafa gaman og að leika okkur eitthvað með þetta allt saman. Við ákváðum samt að fara þá leið að vera með ákveðið konsept, þó að Miles hafi alltaf spilað á trompet þá ákváðum við að trompetleikararnir okkar myndu báðir spila á flügelhorn og skilja trompetinn eftir heima. Málið er að þetta eru fyrst og fremst menn að leika sér og sýna Miles virðingu fremur en að vera eitthvað að fara í spor þessa mikla meistara. Við erum ekkert að fara að spila Kind of Blue eins og Miles spilaði. En það má kannski líka segja að það sé í eðli djasstónlistarmannsins að leika sér og það er ekki síst viðeigandi í þessum virðingarvotti við Miles Davis vegna þess að hann nennti aldrei að staldra við.

Miles Davis var einstakur áhrifavaldur í djasstónlistinni á löngum ferli.
Þetta er maður sem var þungavigtarmaður í framþróun djassins og skapaði nokkra stíla. Hann var brautryðjandi, Kind of Blue var tímamótaplata sem dæmi í svokölluðum modal djassi þar sem menn fóru að fækka hljómunum og líka í cool djassinum þar áður og svo fusion þar sem hann var orðinn alveg elektrón­ískur. Undir lokin á ferlinum var hann svo meira að segja farinn að spila popplög eins og Human Nature, Michael Jackson og Time After Time með Cindy Lauper. Þannig að við erum að fara alveg frá einhverjum gömlum djasshundum yfir í popplög. Þetta er maður sem spilaði bebop með Charlie Parker um 1944 til 1945 og var að þróa sína tónlist allan sinn feril en hann lést 1991.“

Það mætti halda að það hafi verið erfitt fyrir tónlistarmennina að ákveða hvernig þeir ætluðu að meðhöndla þetta mikla höfundarverk en Einar segir að þeir hafi nú verið ósköp rólegir yfir því. „Við hittumst yfir kaffibolla, töluðum um hvaða lög við fíluðum og skiptum á milli okkar að útsetja, æfðum sáralítið og svo bara vonum við það besta. En núna þegar pólitíkin alveg tröllríður samfélaginu þá getum við að minnsta kosti lofað því að við munum ekki ljúga að áhorfendum.“ Tónleikarnir hefjast kl. 21 í Björtuloftum Hörpu.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×